„Þeir klessa svolítið á mig og ég geri það til baka“

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

„Þeir klessa svolítið á mig og ég geri það til baka“

19.04.2021 - 07:50
Heiða Karen Fylkisdóttir er átján ára ökuþór og var valin akstursíþróttakona ársins í fyrra. Hún á ekki langt að sækja áhugann því keppnisfólk í akstursíþróttum er að finna í báðum ættum. „Móðurafi minn er einn af stofnendum BÍKR sem er Bifreiðaíþróttaklúbbur Reykjavíkur. Mamma mín var alltaf með þessa bíladellu og pabbi er búinn að vera að keppa í rallíkrossi og rallí síðan áður en ég fæddist,“ segir Heiða Karen.

Sjálf byrjaði hún að keppa þegar hún var að verða fimmtán ára og hafði þá aldrei keyrt beinskiptan bíl áður svo frumraunin var skrautleg en skemmtileg. „Ég var mjög hrædd og það þurfti alveg að pína mig til að setjast í stólinn. En ég komst yfir það, ég held að það hafi aðallega verið innilokunarkennd.“

Nýtt keppnistímabil hefst í næsta mánuði og markmiðin eru skýr. „Að reyna að komast fram fyrir þessa stráka. Þeir eru búnir að vera svolítið leiðinlegir við mig. Bíllinn talar fyrir það að þeir klessa svolítið á mig. En ég geri það alveg til baka,“ segir Heiða Karen.