Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur að þingmeirihluti sé fyrir sóttkvíarhótelskyldu

Mynd: RÚV / RÚV
Samfylkingin leggur fram frumvarp sem felur í sér að unnt sé að skylda alla á sóttkvíarhótel sem koma til landsins. Flestir stjórnarandstöðuflokkar eru hlynntir málinu. Forsætisráðherra segir að mögulega þurfi að breyta lögum en núna sé verið að leggja mat á stöðuna. Formaður Samfylkingarinnar er bjartsýnn á að meirihluti þingmanna samþykki frumvarpið.

Um mánaðamótin tóku gildi reglur sem skikkuðu alla sem komu til landsins á sóttkvíarhótel. Viku síðar voru þær felldar úr gildi eftir að málið fór fyrir dómstóla og ekki þótti vera lagastoð fyrir reglunum. 

Samfylkingin hefur nú ákveðið að leggja fram lagafrumvarp.

„Þetta er í rauninni örlítil breyting á sóttvarnalögum, 13. greininni, þar sem kveðið er á um heimild til þess að skylda fólk á sóttkvíarhótel undir vissum kringumstæðum,“ segir Logi Einars­son, formaður Samfylkingarinnar.

Forsætisráðherra bendir á að smitin nú hafi komið inn í landið áður en sóttkvíarhótelreglur tóku gildi. Hún segir að nú sé reynt að efla sóttvarnir innan gildandi lagaramma.

 

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV

„Við höfum líka sagt, svo það sé alveg skýrt, þá skoðum við lagabreytingar líka,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra (V).

„Ég held því miður að sundurlyndið í ríkisstjórninni þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja þetta ekki, komi í veg fyrir að þetta sé gert og við verðum þá bara að stíga inn í málið,“ segir Logi.

Telurðu ekki að það sé kominn sá tímapunktur að breyta þurfi lögunum?

„Ja, eins og við sögðum í upphafi. Það kann að vera að það þurfi að breyta lögunum. En við erum auðvitað líka að leggja mat á núna hvernig þetta hefur gengið frá því ný reglugerð tók gildi með hertu eftirliti,“ segir Katrín.

Eruð þið tilbúin með lagafrumvarp?

„Ja, við höfum verið að skoða leiðir í þeim efnum alveg frá því dómur féll. Við munum taka þetta til umræðu væntanlega á okkar fundi á morgun, eins og við höfum verið að gera, og leggja mat á stöðuna,“ segir Katrín.

Er ríkisstjórnin búin að vera á einhverjum krísufundum í dag út af þessu?

„Nei, við erum ekki búin að vera á neinum krísufundum,“ segir Katrín.

Finnst þér líklegt að meirihluti Alþingis muni samþykkja ykkar frumvarp?

„Já, ég er bjartsýnn maður. Þegar svona brýnt mál kemur fram, mikill meirihluti þjóðarinnar vill þetta, þá held ég að fólk láti skynsemina ráða för á endanum,“ segir Logi.

„Við myndum alltaf styðja allar lagabreytingar sem setja skýra lagastoð fyrir skyldudvöl á sóttvarnahóteli að því gefnu að þær brjóti ekki önnur lög eða stjórnarskrá,“ segir Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata.

„Við erum bara mjög fegin að loksins er einhver flokkur að styðja nákvæmlega það sem við höfum verið að biðja um alla tíð,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins.

„Það hefur verið farsælt að fylgja því sem sóttvarnalæknir hefur boðað í þessum málum. Við í Viðreisn munum skoða þetta frumvarp með mjög opnum huga,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Miðflokkurinn vildi ekki tjá sig um málið þar sem flokksmenn höfðu ekki séð frumvarp Samfylkingarinnar.