Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skelfilega ánægjuleg skilnaðarsaga

Mynd: Ugla / EPA

Skelfilega ánægjuleg skilnaðarsaga

19.04.2021 - 11:59

Höfundar

Það er gleðiefni að fá hvert verkið af öðru eftir Peter Handke, Nóbelsskáldið umdeilda, á íslensku segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi í umfjöllun um bókina Hið stutta bréf og hin langa kveðja. „Með þessari þroskasögu skilnaðarins höfum við fengið mikið listaverk í hendur á okkar máli.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Að andláti náins ættingja frátöldu er skilnaður eitt mesta áfall sem einstaklingar verða fyrir í lífinu, held ég óhætt sé að fullyrða. Vissulega hittir það ekki alla eins fyrir, en margur skilnaðurinn skilur eftir djúp ör á sálinni hjá fyrrum elskendum, stundum í öfugu hlutfalli við heitar ástríður í upphafi sambands, því það er í eðli ástarinnar að fórna af fúsum og frjálsum vilja hluta af sjálfinu fyrir aðra manneskju, að verða svo samvaxin tilfinningalega að sundrunin getur verið nánast óbærileg fyrir þá sem í hlut eiga.

Þetta er að einu leyti viðfangsefni þessarar skáldsögu Nóbelsskáldsins Peters Handkes, en hún er samt byggð upp á lögmálum þroskasögunnar, eða að minnsta kosti hefur hún að einhverju leyti tiltekin einkenni hennar, þótt erfitt sé að sjá sögu um skilnað tveggja einstaklinga sem þroskasögu. Höfundurinn gefur samt ótvíræð merki um það í bókinni, þar sem sögumaðurinn er lengst af að lesa eina af þekktari þroskasögum svissneskra bókmennta eftir Gottfried Keller um hinn græna Hinrik, ungan mann sem vildi verða listamaður en heykist á því og snýr aftur heim með rófuna á milli lappanna. Keller skrifaði tvær útgáfur af þessari sögu með mismunandi endi, en síðari útgáfan þykir taka hinni fyrri fram og má gera ráð fyrir að Handke hafi haft hana til hliðsjónar, ekki síst þegar horft er til endisins í hans sögu. Handke kallaði hana líka þroskasögu sjálfur í bréfum frá þeim tíma er hún var rituð, í kringum 1970.

Sagan segir frá ungum Austurríkismanni, tæplega þrítugum, sem er í kominn til Bandaríkjanna eftir skilnað sinn við Judith nokkra (sem reyndar er nafn annarrar af tveimur ástum Hinriks hins græna hjá Keller) og hann fær fjandsamlega orðsendingu frá henni. Hann áttar sig á að hún hefur elt hann yfir hafið og hann leggur á einhvers konar flótta, en gætir þess þó að hún sé ævinlega upplýst um hvert ferð hans er heitið. Frásögnin verður að vegasögu um Bandaríkin þver og endilöng og lýkur þeim hluta hennar á því að þau skötuhjúin hittast. Hvernig þar fer skal lesendum látið eftir að komast að fyrir sig.

Það sem Handke tekst meðal annars meistaralega vel í þessari sögu er að koma til skila órökréttri vanlíðan manns í áfalli, hvernig skynjun hans á heiminum bjagast fullkomlega og túlkun hans staðreyndum tilverunnar, atburðarás, minningum og hreinlega umhverfinu sjálfu er annarleg og bogin af þeirri úlfakreppu sem hann er í tilfinningalega. Sögumaðurinn segir til að mynda á einum stað þetta:

„Ég hugsaði aftur með mér að ég hefði um langt skeið aðeins skynjað umheiminn með undarlegum hætti: Þegar ég ætlaði að lýsa einhverju vissi ég aldrei hvernig það leit út, mundi í mesta lagi eftir undarlegheitum og þegar engin slík voru fyrir hendi bjó ég þau til (67).“

Bókin er full af þessum bjöguðu skynjunum, sem einmitt sveifla þessum prósa upp í skáldlegar hæðir í annarleika sínum. Við fáum að sjá hugleiðingar og líkingar sem eiga fáa sína líka í gegnum frásögnina. Skáldið skýrir það ferli raunar í gegnum sögumanninn:

„Þegar við gengum aftur að bílnum yfir bílastæðið sá ég fyrir ofan hæðarhrygg lítið mjótt ský sem enn var uppljómað af sólinni handan við hæðina. Skýið glitraði svo hvítt fyrir ofan dökka hæðina sem hafði umbreyst í sléttan flöt að við fyrstu sýn sá ég ósjálfrátt kolkrabbagogg á himninum. Allt í einu skildi ég hvernig myndhverfingar urðu til úr ruglingi og skynvillum (81).“

Þessar skynvillur sem við skynjum gegnum sögumanninn gefa sögunni bókmenntalegt gildi sitt að hluta til, þær eru purpurapjötlur hins háleita í textanum, en það er margt annað í gangi líka, textatengslin eru ýmisleg, áðurnefndur Hinrik er þar í fremstur í flokki, en fjallað er beinlínis um Don Carlos eftir Schiller til að mynda og báðum hlutum sögunnar er fylgt úr hlaði með tilvitnunum í skáldsöguna Anton Reiser eftir Karl Philipp Moritz, sem skrifaði þá sálfræðilegu skáldsögu, eins og það heitir í undirtitli, á ofanverðri átjándu öld. Loks er tvífaraminnið vakið upp og þá með nokkuð klassískum hætti, enda líst sögumanni ekkert á það að eiga sér tvífara, hryllir bókstaflega við því. Tónlist tímans leikur líka hlutverk og einkum kvikmyndir fyrri tíma, mikið er vísað til leikstjórans Johns Fords og hann er meira að segja hluti sögunnar í eigin persónu undir lokin.

Lesendur fá smám saman innsýn í skipbrot hjónabands sögumanns við Judith, einkum þegar hann segir samferðakonu sinni, Claire, sem er með honum á á löngum hluta ferðalagsins, frá því hvernig sambandið leystist upp í öreindir uns þau voru farin að leika hlutverk í eigin lífi:

„Þegar við vorum ekki ein saman, heldur lékum hlutverk, svo sem hlutverk gestgjafa á veitingahúsi, ferðamanna í flugstöð, bíógesta, gesta, og aðrir komu líka fram við okkur sem túlkendur hlutverka, þoldum við hvort annað aftur vegna þess að við skynjuðum okkur eingöngu sem leikara og vorum nánast stolt af því hversu eðlilega við lékum þessi hlutverk“ (133-134).“

Það hlýtur alltaf að vera ömurlegt að leika sjálfan sig í eigin lífi, en ég spurði mig líka hvort það væri svo óalgengt; leikum við ekki flest einhver hlutverk, að minnsta kosti í okkar opinbera lífi ef svo má segja.

Þýðing Árna Óskarssonar er, eins og vænta mátti, örugg og skýr og hann nær stílgaldri Handkes afbragðs vel. Ég fór ekki í neinn samanburð, verkið vinnur vel á sínum forsendum á íslensku og það verður að láta aðra um baunatalningu á hnökrum ef einhverjir eru. Ég einfaldlega naut þess að lesa textann á góðri og læsilegri íslensku, þrátt fyrir að setningabygging þýskunnar fengi stundum að gægjast fram, það er allt í lagi að skynja framandleika framandi verka eins og mátti finna í síðustu tilvitnuninni hér á undan.

En það er gleðiefni að við skulum vera að fá hér hvert verkið af öðru eftir Nóbelsskáldið, þótt umdeilt sé, en hvað sem pólitískum skoðunum Handkes líður þá erum við að fá hér í hendur mikilvægt bókmenntaverk á íslensku sem sýnir svart á hvítu að hin einnig umdeildu Nóbelsverðlaun voru verðskulduð í þessu tilfelli. Það er raunar frábært að sjá hvað lítil forlög eins og Ugla afreka á því sviði að færa okkur nútímabókmenntir í íslenskum þýðingum og ber að þakka þeim öllum það. En með þessari þroskasögu skilnaðarins höfum við fengið mikið listaverk í hendur á okkar máli og ég er viss um að margir geti notið af ánægju og sumir raunar af skelfingu, því nærri heggur sagan til allra sem í skilnaði hafa staðið. En úrvinnsla Handkes getur líka reynst þeim haldreipi í þeirra áfalli og opnað augu þeirra fyrir því að skilnaður er ferli sem fara þarf í gegnum til að ná aftur áttum, ef unnt er.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Fæddur til ógnar og skelfingar“

Bókmenntir

Stoppað upp í eitt af götum íslensks menningarrefils

Bókmenntir

Deilur um Peter Handke – gömul saga og ný

Bókmenntir

Nóbelsverðlaun vekja undrun og reiði