Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rússar að ítreka að Úkraína sé á þeirra áhrifasvæði

19.04.2021 - 19:50
Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í varnarmálum. - Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja lýsa þungum áhyggjum af deilu Rússa og Úkraínumanna. 150.000 rússneskir hermenn séu nú við landamæri ríkjanna. Albert Jónsson, sérfræðingur í varnarmálum og fyrrverandi sendiherra, segir að Rússar vilji með herflutningunum minna á að Úkraína sé á þeirra áhrifasvæði. Ólíklegt sé að átök brjótist út. 

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins ræddust við á fjarfundi í dag. Þar var einnig utanríkisráðherra Úkraínu. Á fundinum bar hæst aukna spennu á landamærum Úkraínu og Rússlands. Á fundinum lýsti Josep Borrell, utanríkismálastjóri sambandsins, því yfir að fleiri en 150.000 rússneskir hermenn séu við landamæri Rússlands að Úkraínu og á Krímskaga. 

Rússar hafa bent á að þeir séu við heræfingar í sínu eigin ríki en að þeir séu reiðubúnir að verja íbúa af rússneskum uppruna í austurhluta Úkraínu, gerist þess þörf. Ráðherrarnir lýstu í dag yfir fullum stuðningi við sjálfstæði Úkraínu en ætla ekki að grípa til frekari refsiaðgerða gegn Rússum. Borrell sagði að fjöldi rússneskra hermanna við Úkraínu hafi aldrei verið eins mikill.

Enn pattstaða og leiðin út ekki augljós

Bandarísk stjórnvöld og eins stjórnvöld ýmissa Evrópuríkja hafa þrýst á Rússa að draga úr viðbúnaði sínum við Úkraínu. Rússnesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að aðgerðir Atlantshafsbandalagsins séu ógnandi og því grípi þeir til varna. Vesturveldin hafa ítrekað síðustu daga lýst yfir stuðningi við Úkraínumenn. Albert telur litlar líkur á að átök brjótist út milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Rússa en að samskiptin hafi verið mjög stirð síðan 2013 til 2014, þegar Rússar innlimuðu Krímskaga. „Öðru máli gegnir auðvitað um samskipti Úkraínu og Rússlands og þar hafa menn haft áhyggjur af að það geti komið til átaka vegna þessa liðsafnaðar Rússa,“ segir hann. 

Hann bendir á að bandarísk hernaðaryfirvöld hafi sagt að einkenni liðsafnaðar Rússa beri ekki með sér að fyrir dyrum sé innrás í Úkraínu. Þá hafi Rússar lýst yfir vilja til að finna lausn samkvæmt Minsk-samkomulaginu, sem ríkisstjórn í Úkraínu hugnist reyndar ekki. Hún hafi þó haft frumkvæði að ákveðnum þreifingum, sérstaklega í gegnum Frakka og Þjóðverja. „Þannig að þetta er ekki í frosti en það er vissulega enn þá þarna pattstaða sem að er erfitt að sjá að muni losna um.“

epa08688452 European High Representative of the Union for Foreign Affairs Josep Borrell speaks during joint press conference with Ukrainian Foreign Minister Dmytro Kuleba (not pictured) in Kiev, Ukraine, 22 September 2020. Josep Borrell is on a one-day official visit to Ukraine.  EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Josep Borrell, utanríkismálarstjóri Evrópusambandsins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB.

Telur Rússa vilja halda Úkraínu frá NATO og ESB

Albert telur að í aðalatriðum vilji Rússar, með aðgerðum sínum, sýna að Úkraína sé lykilstaður á þeirra áhrifasvæði, sem eigi sér langa sögu og tengist þeirra öryggishagsmunum. Hann bendir á að Rússum þyki aðgerðir Úkraínumanna undanfarið þrengja að Rússum í austurhluta landsins. Sjálfur telur Albert þær aðgerðir ekki hafa verið alvarlegar, en að í aðalatriðum sé viðbúnaður Rússa við landamærin nú hluti af langri sögu. „Rússar eru í aðalatriðum að minna á að, frá þeirra bæjardyrum séð, er Úkraína lykilstaður á áhrifasvæði Rússlands sem á sér langa sögu og tengist að þeirra mati grundvallar öryggishagsmunum Rússlands og þeir eru jafnframt að minna á að þeir hafi þá burði sem þurfi til að grípa þar inn til að gæta rússneskra hagsmuna eftir þörfum.“  

Einnig vilji Rússar ráða því hvert Úkraína geti stefnt, þó rússnesk stjórnvöld segi slíkt ekki hreint út. „Og þá er nú aðallega verið að hugsa um að halda Úkraínu frá NATO og Evrópusambandinu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Óhætt er að segja að samskipti stjórnvalda á Vesturlöndum við Rússa hafi versnað síðustu daga. Stjórnvöld í Bandaríkjunum ráku nokkra rússneska sendiráðsstarfsmenn úr landi á dögunum og beittu einstaklinga og fyrirtæki refsiaðgerðum, og sögðu það gert meðal annars vegna afskipta Rússa af kosningum í Bandaríkjunum, netárása og vegna heilsufars stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, var spurður að því í viðtali á dögunum hvort hann teldi að Vladimír Pútín, forseti Rússlands væri morðingi. Því svaraði Biden játandi og leiða má líkur að þvi að slíkt hafi ekki verið til að bæta samskipti ríkjanna.

Stuttu síðar hringdi Biden þó í Pútín og bauð honum til fundar við sig í sumar. Albert segir að fundarboðið sé skref í rétta átt og að eins hafi verið áhugavert að hlusta á Biden á blaðamannafundi þegar hann tilkynnti um nýjar þvingunaraðgerðir gegn Rússum, þó ekki vegna Úkraínu heldur annarra mála. Þar hafi Biden tekið fram að ákveðið hafi verið að grípa ekki til harðari aðgerða en gert hafi verið, til að stigmagna ekki deilur ríkjanna og gera sambúðina enn erfiðari.

Pútín þáði boð Bidens á loftslagsfund

Rússar hafa ekki enn formlega svarað beiðni um leiðtogafund og bendir Albert á að þeir hafi enn sem komið er tekið boðinu dauflega, en hafi ekki útilokað neitt. „Svo skulum við hafa í huga að það eru óútreiknanlegir þættir sem að hafa áhrif á það hvort að svona fundur verður; heilsa stjórnarandstæðingsins Navalnys er einn slíkur þáttur, mjög viðkvæm og eldfim staða í Hvíta-Rússlandi er annar þáttur, en Hvíta-Rússland er líka, eins og Úkraína, í augum Kremlar-herra mjög mikilvægur staður á áhrifasvæði Rússlands en auðvitað kemur allt til greina og þetta er vandasöm stefna hjá Bandaríkjastjórn, annars vegar að beita þvingunaraðgerðum ítrekað og hins vegar að halda opnum möguleikum viðræðum vegna sameiginlegra hagsmuna,“ segir hann.

Í dag barst hins vegar sú frétt að Pútín hafi þegið boð Bidens um að taka þátt í fjarleiðtogafundi um loftslagsmál á fimmtudag og föstudag í þessari viku. 40 þjóðarleiðtogar fengu boð á fundinn. Reuters greinir frá því að Pútín flytji ávarp á fundinum á fimmtudag. Albert segir að það sé því ekki alkul í samskiptunum en það sé þó spurning hvaða svigrúm sé til staðar eftir það sem á undan er gengið.