Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Langar raðir mynduðust þegar 2.800 voru skimaðir

19.04.2021 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Rúmlega 2.800 manns fóru í COVID-19 sýnatöku í dag. „Þetta er vissulega stór dagur og örugglega einn af okkar stærstu dögum,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Alls greindust 44 með kórónuveirusmit um helgina en tvær hópsýkingar eru í gangi sem rekja má til þess að óvarlega var farið í sóttkví við komuna til landsins.

Langar raðir mynduðust í dag við gamla Orkuhúsið á Suðurlandsbraut þar sem sýnataka Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu fer fram. Á tímabili náði röðin upp í Ármúla. „Það var mjög löng biðröð þarna en hún gekk nokkuð hratt. Þegar það eru svona margir að koma í einu er það illviðráðanlegt nema það myndist biðröð því það er bara einn inngangur,“ segir Ragnheiður.

Ljóst er að mikið álag var á starfsfólki heilsugæslustöðvanna vegna fjöldans. „Ég held að það hafi farið upp í 160 sýnatökur á tíu mínútum. Þetta eru svo rosalega margir sem koma. Þetta er hröð keyrsla og röðin gengur mjög hratt. Það voru sem betur fer engar bólusetningar í dag svo það voru bara allir í þessu,“ segir Ragnheiður.