Kári vill herða samkomutakmarkanir á ný

19.04.2021 - 08:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir lífsnauðsynlegt að herða samkomutakmarkanir á ný í ljósi vaxandi fjölda smita á undanförnum dögum.

Þetta kom fram í máli Kára í Morgunútvarpi Rásar 2. Rúmlega 20 kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og 13 í fyrradag.

Dregið var úr samkomutakmörkunum á fimmtudag í síðustu viku. Sundlaugar, leikhús og líkamsræktarstöðvar fengu að opna á ný og þá voru fjöldatakmarkanir rýmkaðar. Kári segir að það verði eflaust erfitt að herða sóttvarnir á ný en það sé hins vegar lífsnauðsynlegt í ljósi stöðunnar.

„Ég held að menn séu ekkert mjög ákafir í að fara að herða skrúfuna aftur. En ég held að það sé alveg gjörsamlega lífsnauðsynlegt. Það sem er merkilegast í þessu öllu saman er að við getum náð utan um þetta ef við vöktum landamærin eins vel eins og skyldi,“ segir Kári. 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV