
Hátt í 300 á sóttkvíarhóteli og farsóttarhúsi
Alls voru 244 á sóttkvíarhótelinu við Þórunnartún í nótt og 39 í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg, þar af 21 í einangrun. Gylfi Þór segir að rúmlega hundrað herbergi samtals standi ónotuð og því sé hægt að taka á móti fleiri gestum ef svo ber undir og líka ef sóttvarnareglur á landamærum verða hertar. Þá er Rauði krossinn með í undirbúningi að taka í notkun eina hæð á Storm hóteli sem einnig stendur við Þórunnartún.
„Við erum tilbúin að taka á móti auknum fjölda en það væri hins vegar gott að fá smá fyrirvara ef reglur á landamærum verða hertar,“ segir Gylfi.
Hann segir að starfsemin hafi almennt gengið vel. Gestir sýni sóttvarnareglum skilning og fá dæmi um að fólk sé að brjóta reglur. Einhverjir hafi þó verið of lengi í útivist og þá séu dæmi um að fólk biðji vini og vandamenn um að skutla sér á sóttkvíarhótelið en það er bannað.