Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hætt að gjósa úr nyrsta gígnum

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Birgir Óskarsson - RÚV
Nyrsti gígurinn á gossvæðinu á Reykjanesskaga, sá sem opnaðist á annan dag páska, er hættur að gjósa. Þetta sýna loftmyndir frá sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar frá því í gær.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands greindi frá lokun gígsins á Facebook síðu sinni. 

Birgir Óskarsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun tók meðfylgjandi loftmyndir í flugi vísindamanna yfir svæðið í gær. Hann segir að það hafi ekki leynt sér að gígurinn hafi verið orðinn tómur þá, svo það má leiða líkur að því að hraunrennslið hafi minnkað verulega og hætt á seinasta sólarhringnum eða svo.

„Þessi gígur var mjög líflegur og reis nokkuð hratt fyrstu dagana. Var hann á endanum orðinn töluvert hærri í landslaginu en önnur gosop. Slíkar aðstæður geta ýtt undir það að kvikan á erfiðara með að komast upp um þetta tiltekna gosop og hefur flæðið því fundið sér auðveldari leið út um önnur op,“ segir í færslu Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands. 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Birgir Óskarsson - RÚV