Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greta Thunberg gefur 15 milljónir til Covax

19.04.2021 - 16:57
epa07914350 Environmental activist Greta Thunberg of Sweden speaks at a Fridays for Future environmental protest at the Denver Civic Center in Denver, Colorado, USA, 11 October 2019.  EPA-EFE/Bob Pearson
 Mynd: Bob Pearson - RÚV
Sænski aðgerðasinninn Greta Thunberg ætlar að gefa andvirði ríflega 15 milljóna króna til Covax samstarfsins. Hún segir alþjóðasamfélagið, ríkisstjórnir og bóluefnaframleiðendur verða að spýta í lófana.

Covax er alþjóðlegt átak til þess að koma bóluefni til viðkvæmasta fimmtungs hvers lands hið minnsta. Þannig á að koma til móts við fátækari ríki heims. Á upplýsingafundi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sem Thunberg var gestur á í dag, þakkaði forstjórinn Tedros Ghebreyesus henni fyrir ötula baráttu í loftslagsmálum og fyrir framlagið til Covax.

Verði að spýta í lófana

Thunberg segir að á meðan 1 af hverjum 4 í efnaðri ríkjum hafi verið bólusettur hafi aðeins 1 af hverjum 500 verið bólusettur í þeim fátækari. Því verði alþjóðasamfélagið, ríkisstjórnir og bóluefnaframleiðendur að spýta í lófana og taka þessu ójafnræði sem hún líkir við hörmungar.