Gosið sótt í sig veðrið seinustu tvær vikur

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Afl gossins á Reykjanesskaga hefur aukist nokkuð eftir því sem fleiri gígar opnast á gosstöðvunum. Meðalrennsli frá gígunum síðustu sex daga var um átta rúmmetrar á sekúndu. Gosið er þó enn lítið í samanburði við önnur.

 

Þetta sýna nýjar niðurstöður jarðvísindamanna hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sem birtar voru í morgun en þeir flugu yfir svæðið í gær. Flatarmál hraunsins er 0,9 ferkílómetrar og heildarrúmmál þess um 14 milljónir rúmmetra. Meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana var 5,6 rúmmetrar á sekúndu. Samanborið við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt.

Síðustu tvær vikur hefur gosið heldur sótt í sig veðrið sem er nokkuð óvenjulegt miðað við önnur gos. Ekki er hægt að segja til um hversu lengi á eftir að gjósa, en þróun hraunrennslis gefur vísbendingar um það þegar fram í sækir.   

Til samanburðar má geta þess að hraunrennslið er aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali fyrstu 10 daga gossins í Fimmvörðuhálsi árið 2010 og samanborið við Holuhraunsgosið er rennslið sex til sjö prósent af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og í Surtseyjargosinu eftir að hraungos hófst þar þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.