Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Galsafullar laglínur og mikið Andans efni

Mynd: - / Andi

Galsafullar laglínur og mikið Andans efni

19.04.2021 - 10:22

Höfundar

Andri Eyjólfsson sem gengur undir listamannsnafninu Andi er einn frjóasti raftónlistarmaður landsins um þessar mundir. Á dögunum gaf hann út sjötommu vínylplötu með tveimur nýjum lögum, sem hann nefnir Á meðan.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Andri Eyjólfsson er rúmlega þrítugur Hafnfirðingur sem á að baki nám í klassískum gítarleik sem hann notar enn þann dag í dag þegar hann semur tónlist. Hann gaf út sína fyrstu breiðskífu, Andi, í 50 tölusettum kasettum hjá neðanjarðarútgáfunni Ladyboy Records árið 2016, en sem betur fer líka á bandcamp þannig að fleiru gátu notið hennar. Því að þrátt fyrir frumleikann og skringilegheitin er tónlistin langt frá því að vera tyrfin eða óaðgengileg, galgopalegri leikgleði er sallað út um allt og ótrúlega sterk tilfinning Anda fyrir fallegum melódíum skín eins og sólargeisli gegn um plötuna.

Þetta er léttleikandi rafpopp án söngs sem er einhvern vegin bæði gamaldags og framtíðarleg, og minnir á bernskuár raftónlistarinnar fyrir áratugum síðan. Tónlistin sækir stíft í svokallað Ítaló-diskó, naívískan og hljóðgervladrifinn undirgeira diskósins sem var mestmegnis framleiddur af evrópskum upptökustjórum seint á 8. áratugnum og snemma á þeim níunda. Þá dýfir Andi sér ofan í arfleifð upptökustjórans, diskó- og synþafrömuðarins Giorgio Moroders og fær sér sundsprett í henni, auk þess sem gáskafullt tölvuleikjapopp japönsku sveitarinnar Yellow Magic Orchestra kemur upp í hugann við hlustun plötunnar. Það er mikil hreyfing í lögunum og glettnislegir titlarnir endurspegla það; Göngutúr, Svarthol, Á hraðferð og Endamörk.

Strax í fyrsta laginu Fútúrismi Femínismi sprettur Andinn fram fullskapaður upp úr eigin sauðalegg, en lagið hefst á snaggaralegum synþabassa-arpeggíum og stökkum snerilslögum. Þar birtist líka fljótlega eitt af leiðarstefunum í hljóðheimi plötunnar sem eru gervilegir synþastrengir, og ég meina það alls ekki á slæman hátt. Þú heyrir alveg að þetta eru ekki alvöru strengir en samt eru laglínurnar og útsetningin eins og um kammerkvartett sé að ræða, og það myndar skemmtilegan kontrast við pumpandi trommuheilataktinn og rafhljóðin undir.

Þrátt fyrir að vera ósungin raftónlist á hún samt að ýmsu leyti meira skylt við popp en teknó- og hústónlist. Því hér fer ekki mikið fyrir mekanískri endurtekningu heldur má finna ofgnótt mismunandi melódía innan sama lags, og stundum eins konar viðlagsígildi. Sumir synþar gegna hlutverki einsöngskafla, og flestar laglínur eru á stöðugri hreyfingu, eiga í virku samtali og jafnvel rifrildum hver við aðra. Mikið erum óvæntar vendingar og kaflaskiptingar þrátt fyrir lögin séu stutt, en aðeins tvö af átta rjúfa fjögurra mínútna múrinn.

Andi lærði klassískan gítarleik og kenndi í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar áður en hann hóf tónlistarferilinn, en hann fann fyrst hvöt hjá sér til að búa til raftónlist eftir að hafa dansað mikið við hana á skemmtistöðum. Í viðtali við Lestina árið 2018 greinir hann frá því að hann hafi ekki haft hugmynd um hvernig ætti að semja eða framleiða slíka tónlist og hann hafi gert þessa fyrstu plötu án þess að hafa neina tæknlega færni eða kunna hefðbundnar reglur danstónlistar; hún hafi verið hundrað prósent heimaspunnin. Og það heyrist glöggt á galsafengri nálguninni og frjálslegum strúktúrnum, fyrir utan það hversu stutt platan er, en lög í þessum geira spanna yfirleitt frá sex mínútum og upp úr, hér eru tvö eilítið lengri en fjórar og flest tæplega eða rétt svo rúmlega þrjár. Þessi fyrsta plata Anda var mikill fengur og ein besta íslenska plata ársins 2016.

Vorið 2018 kom út á safnplötu hið stórfína og mátulega flippaða lag Spúkí Woogie þar sem Andi reynir eilítið á eigin rödd, og þó textinn nái ekki lengra en endurtekning á titlinum hefur hann tilætluð áhrif. Önnur breiðskífa Anda kom svo út haustið 2018 og nefndist Allt í einu. Þar heyrist strax mikil framför frá fyrri plötunni, öll hljóðblöndun er mýkri, og það er einhvern vegin fágaðri dýnamík milli takts, hljóma og aðalmelódíu. En það sem hafði ekkert breyst var óþrjótandi hugmyndaauðgin í strúktúrnum og hversu gríðarlega mörgum grallaralegum laglínum Andi getur komið fyrir í einu lagi.

Lögin heita flest orðum yfir hversdagslegar athafnir, Viðgerð, Út að borða, Á döfinni, Seyði og Hringiða sem hér ómar undir. Það á vel við því eins og fyrri plötunni er mikil hreyfing í lögunum, þau eru mjög fúnksjonal, og fullkomin sem sándtrakk til að lífga upp á hversdagslegar og óspennandi athafnir, frábær tónlist til að hafa í eyrunum þegar maður er að labba, skokka, hjóla, vaska upp eða ryksuga. Það er vart hægt að láta sér leiðast yfir upphafslaginu Viðgerð sem skartar nokkrum mismunandi synþalínum sem skoppa hver af annarri og skellir svo ofan á kæruleysislegum hummumm, sem eru eina mannsröddin sem heyrist á plötunni.

Platan hlaut eilítið meiri athygli en sú fyrri og var ein þeirra sex platna sem hlutu Kraums-verðlaunin, og var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna sem besta raftónlistarplatan, sem hún hefði réttilega átt að hljóta, og hefði örugglega gert það ef ekki hefði verið fyrir þá stórskringilegu flokkun að telja Afsakanir með Auði sem raftónlistarplötu. Lítið hefur svo farið fyrir Anda síðustu þrjú ár, þar til á dögunum þegar út kom sjö tommu smáskífan Á meðan í 50 tölusettum eintökum á vegum Reykjavík Records plötubúðarinnar og útgáfunnar.

Andi hefur engu gleymt, þrátt fyrir að fyrra lag smáskífunnar heiti einmitt Gleyma, og hið síðara Glæta. En aftur hefur hljómurinn þróast og er nú kannski eilítið meira fullorðins og minna galgopalegur en áður, aðeins meira teknó og minna flipp, myrkara yfirbragð þó það sé ennþá dansvænt. Lögin eru líka lengri en hann hefur almennt gert áður, bæði um sex mínútur og með hægri uppbyggingu. Um miðbik hins fyrra byrjar svo skæld mannsrödd að endurtaka titilinn Gleyma sem flöktir inn og út úr mixinu. Ég ætla að vona að fólk sé ekki búið að gleyma Anda því hann er einni hæfileikaríkasti raftónlistarmaður sem hefur stigið fram á íslenska sjónarsviðið síðustu ár, og það er gott að fá hann aftur. Við biðlum til andans í flöskunni að það sé von á meira efni frá honum á næstunni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Rómantískur hversdagsleiki á dansgólfinu