Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Fólk getur farið illa út úr því að veikjast af COVID“

Mynd: Kastljós / RÚV
Hilma Hólm, hjartalæknir hjá Íslenskri erfðagreiningu, sem stýrði rannsókn á langtímaáhrifum farsóttarinnar á heilsufar og úthald, segir að koma eigi í veg fyrir að fólk sýkist af kórónuveirunni. „Fólk getur farið illa út úr því að veikjast af þessari veiru.“ Hún bendir á að það séu ekki einungis þeir sem veiktust illa sem glími við erfið eftirköst heldur eigi það einnig við um dágóðan hluta þeirra sem veiktust ekki mikið.

Þetta var meðal þess sem kom fram í Kastljósi í kvöld.

Í viðtalinu fór Hilma yfir rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar. Hún leiddi meðal annars í ljós að skert lyktar-og bragðskyn virðist ekki tengjast alvarleika veikindanna og að stór hópur fólks glími enn við mikil einkenni, sumir jafnvel 5 til 11 mánuðum eftir að þeir veiktust.  

Hilma sagði að koma ætti í veg fyrir að fólk veiktist af þessari veiru. „Ég myndi halda að það væri skynsamlegt að herða aðgerðir á landamærunum eins og sóttvarnalæknir hefur rætt.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV