Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekki minnisblað á teikniborðinu ennþá að minnsta kosti

19.04.2021 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hertar aðgerðir innanlands séu ekki á teikniborðinu eins og er. Hann sé þó ekki lengi að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra ef faraldurinn heldur áfram að dreifa úr sér.

Það sé ákveðin brotalöm fólgin í því að ná ekki sambandi við þá sem eru með einbeittan brotavilja og virða ekki sóttkví.

„Ég er ekki með minnisblað á teikniborðinu núna en ég get hent því upp með litlum fyrirvara ef á þarf að halda. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sjáum hver útbreiðslan, samfélagsleg útbreiðsla er og sjáum hvernig dagurinn í dag verður áður en ég fer að leggja til einhverjar harðari aðgerðir. Ég minni á að smitin urðu til  þegar takmarkanirnar voru miklu meiri. Þ.e.a.s. þetta sem við erum að sjá núna stendur ekki í samhengi við þær tilslakanir sem voru gerðar fyrir helgina,“ segir Þórólfur.

Segir Þórólfur Guðnason.  Liður í hertum aðgerðum á landamærunum var að auka eftirlit með fólki í sóttkví. Teymi á vegum sóttvarnalæknis á að sinna þessu eftirliti, ekki lögreglumenn. Uppruni hópsýkinganna sem nú eru í gangi eru raktar til brots á sóttkví eftir komuna til landsins rétt fyrir síðustu mánaðamót. Aukið eftirlit felst meðal annars í að hringja í fólk sem á að vera í sóttkví. Það getur þó verið tímafrekt að ná í þá sem ekki vilja láta ná í sig.

„Já já, það gerir það og það gerði það í þessu tilfelli líka og það er ákveðin brotalöm, það er alveg rétt. Hefur eitthvað að segja að vera að hringja í fólk, getur það ekki sagt hvað sem er í símann? Jú en við getum líka ákveðið að senda eftirlit á staðinn,“ segir Þórólfur.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að frá áramótum hafi lögregla haft um 25 mál til rannsóknar þar sem fólk hefur gerst brotlegt við sóttkví. Það sé fátt sem kemur í veg fyrir einbeittan brotavilja. Lögreglan reyni að hafa sem mest eftirlit símleiðiss, en það dugi þó ekki alltaf til og þá þarf að fara á staðinn. Menn reyna að elta vísbendingar eins og hægt er.

„Fyrsta vísbending er oft sú að það sé ekki svarað,“ segir Víðir. 

Verið er að skoða lagagrundvöll fyrir þessu aukna eftirliti, meðal annars með tilliti til persónuverndar og friðhelgi einkalífs.