„Ef maður hverfur er bara eins og maður sé látinn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ef maður hverfur er bara eins og maður sé látinn“

19.04.2021 - 13:10

Höfundar

Jón Ársæll Þórðarson fjölmiðlamaður hefur lítið sést á skjám landsmanna undanfarið en þó haft í nægu að snúast. Hann er að leggja lokahönd á nýja útvarpsþætti um Jón Indíafara og heimildarmynd um leitina að Gullskipinu á Skeiðaraársandi.

Fjölmiðlamaðurinn góðkunni Jón Ársæll Þórðarson var tíður gestur á skjám landsmanna í þáttum á borð við Sjálfstætt fólk, Paradísarheimt og Ísland í dag. Hann hefur staðið í ströngu síðustu misseri þó hann hafi lítið sem ekkert sést í sjónvarpinu. „Ég er búinn að vera með fasta útvarpsþætti í áratugi og ef maður hverfur er bara eins og maður sé látinn. Ég er eiginlega maður með framtíðina að baki mér, ef þannig má að orði komast,“ segir hann glettinn í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Skipið er enn ekki fundið

Hann hefur verið að vinna að heimildarmynd um leitina að Gullskipinu á Skeiðarársandi, Het Wapen van Amsterdam, sem fórst þar um slóðir árið 1667 og hefur aldrei fundist. Leitað hefur verið að því án árangurs en nú er leit hafin á ný og Jón Ársæll fylgist með og gerir henni skil í mynd sinni. „Sú mynd er að verða klár, við erum á síðustu metrunum en skipið er enn ekki fundið.“ Leitinni er þó síður en svo lokið. „Þetta er sagan endalausa. Þetta er fyrsti kaflinn af mörgum í leitinni að gullskipinu. Þetta er búið að vera mikið ævintýri.“

Leita með drónum í sumar

Hann segir söguna af skipinu stórmerkilega en það var hlaðið gersemum; demöntum, vefnaðarvöru, silki, bómullarklæðum, kryddi, negul og te. En mikilvægast er að finna skipið sjálft. „Bara það að finna skipið væri gríðarlegur fundur og myndi vera kafli í skipasögu og siglinga á jörðinni.“

Myndina vinnur Jón Ársæll með Steingrími Jóni Þórðarsyni vini sínum, pródúsent og myndatökumanni en það er Gísli Gíslason sem stendur fyrir leitinni. Í sumar verður leitinni haldið áfram með drónum og Jón Ársæll hefur mikla trú á þeirri aðferð. „Þetta er ný tækni sem er spennandi og gæti gefið góða raun,“ segir hann. Það er rússneskur hópur vísindamanna sem er að þessu og þeir hafi náð góðum árangri með sömu tækni, meðal annars fundið týndar flugvélar á Grænlandsjökli frá stríðinu.

Segir ævintýralega sögu Jóns Indíafara

Jólin 2021 fá landsmenn líka tækifæri til að hlýða á nýja útvarpsþætti úr smiðju Jóns Ársæls sem fjalla um för Jóns Ólafssonar Indíafara til Indlands árið 1615. Jón Indíafari var íslenskur rithöfundur og ævintýramaður, frá Svarthamri í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Hann skrifaði reisubók þegar hann var 67 ára árið 1661, um dvöl sína í Kaupmannahöfn og ferðina til Indlands.

Jón Ársæll og eiginkona hans Steinunn Þórarinsdóttir fengu lánað Jónshús í Kaupmannahöfn við gerð þáttanna og skoðuðu ýmsa sögulega staði í borginni sem Jón Indíafari hafði dvalist á. Í þáttunum verður ævintýralegri sögu hans gerð skil. „Hann fer tvítugur að heiman, kemst um borð í enska skútu til Englands og Danmerkur, gerðist maður kóngsins og kemst alla leið til Indlands.“ „Hann er eiginlega besta heimild Dana um þetta tímabil í sögu sinni þegar þeir fara frá Kaupmannahöfn og stofna nýlendu í Indlandi.“

Lífið er ævintýri

Uppruni Jóns Ólafssonar setji svip á frásögnina sem sé sögð út frá augum sveitamannsins. „Það er gaman að setja sig inn í þetta og það eru svo margir sem hafa áhuga á þessu þó þetta sé orðin 400 ára gömul saga,“ segir Jón Ársæll. „Og þetta eru endalaus ævintýri, lífið er ævintýri krakkar mínir.“

„Getum við ekki ráðið því hvað við erum með í vösunum?“

Ólíkt langflestum fullorðnum samlöndum sínum, og meira að segja þó stór hluti barna sé meðtalinn, á Jón Ársæll engan farsíma svo það er ekki hægt að ná í hann hvar og hvenær sem er. Heimilisfólk hans hefur bent á að hann sleppi vel með því að nota farsíma allra annarra í fjölskyldunni en komist hjá því að borga nokkuð.

Stórhættulegt að vera alltaf með símann við punginn eða heilabörkinn

„Einhvern veginn beit ég í mig að nota ekki farsíma, en þetta er náttúrulega dálítið skrýtið að einhverju tæki skuli vera þröngvað upp á hvern einstakling í nútímasamfélagi. Hvað er þetta? Getum við ekki ráðið því hvað við erum með í vösunum?“ Hann segist upplifa frelsi í farsímaleysinu en hefur líka trú á að mikil notkun þeirra geti skapað hættu. „Mér er sagt að þetta sé stórhættulegt, að vera alltaf annað hvort með þetta við punginn eða heilabörkinn.“

Faðmar tré og lyktar af brumi, stálsleginn eftir COVID-veikindi fyrir ári

Eins og margir vita veiktist Jón Ársæll af COVID fyrir rúmu ári og það tók hann hátt í mánuð að jafna sig. „Þetta er ekkert grín og hugur minn er hjá þeim sama hafa orðið illa úti í COVID.“ Hann sé feginn því að í hans tilfelli var þetta eins og venjuleg flensa. Hann telur líklegast að hann hafi smitast í New York en hann var tiltölulega nýkominn þaðan þegar hann fann fyrir einkennum. Nú ári síðar er hann byrjaður að undirbúa og hlakka til vors og sumars og kveðst hann handviss um að við komumst yfir þennan smitskafl í sameiningu. Hækkandi sól veitir Jóni Ársæli svo mikla hamingju að hann kveðst faðma tré og lykta af brumi, enda hefur hann beðið eftir vorinu frá því um áramótin.

Verður ekki ríkur þó hann finni gullskip

En hvað á maður að gera sem finnur skip eins og Gullskipið eftir margra alda leit? „Hringja í Þjóðminjasafnið, íslenska ríkið á þetta allt saman.“ „Sá á fund sem finnur“ máltækið eigi ekki við þegar slíkur fundur væri annars vegar, en hann myndi samt færa honum mikla hamingju. „En gleðin yfir fundinum og að geta bætt kafla í siglingasögu þjóðanna,“ telur hann upp sem kosti þess að vera viðstaddur slíkan fund. Hann hefur fulla trú á að nú takist það loks.

Rætt var við Jón Ársæl Þórðarson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég er búinn að vera alveg ómögulegur í mánuð“