Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Binda vonir við nýja löggjöf í baráttunni gegn mansali

Yfirlögfræðingur hjá lögreglustjóranum á suðurnesjum
 Mynd: RÚV/Grímur
Þótt lögregla telji að mansal sé útbreitt hér á landi hefur aðeins eitt slíkt mál endað með sakfellingu. Bundnar eru vonir við að ný löggjöf hjálpi til við rannsókn slíkra mála.

Þrettán mansalsmál hafa komið inn á borð Bjarkarhlíðar síðan í fyrrasumar. Málin eru misalvarleg en um helgina sagði fréttastofa frá máli manns sem var frelsissviptur og látinn vinna á veitingastað í fimm mánuði áður en honum var bjargað af samlöndum sínum. Maðurinn var frá Asíu en umræddur veitingastaður er ekki lengur í rekstri.

Aðeins sakfellt í einu mansalsmáli

Maðurinn kaus að fara af landi brott og því gat lögregla ekki látið hann bera vitni. Þannig fer reyndar um flest mansalsmál sem tilkynnt eru til lögreglu og aðeins einu sinni hefur verið sakfellt fyrir mansal á Íslandi þótt lögregla telji að það sé nokkuð útbreitt.

Ástæðurnar eru margvíslegar. Þolendur mansals eiga oft erfitt með að treysta lögreglu, þau jafnvel vita ekki að þau séu þolendur mansals og þekkja ekki réttindi sín, þau eru í viðkvæmri stöðu, skortir jafnvel húsaskjól eða óttast að gerendurnir vinni þeim eða fjölskyldum þeirra í heimalandinu mein. Sönnunarbyrðin er erfið og rannsóknir geta tekið langan tíma.

 „Þannig að fólk sem að kannski er í þessari stöðu, það sér kannski þann hag vænstan að fara bara aftur til heimalandsins og sleppa því að fara í gegnum þetta kerfi sem hér er,“ segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Alþingi smíðar nýja löggjöf

Það spilar einnig inn í að hér á landi er mansal skilgreint þröngt í lögum - til að um mansal sé að ræða þá þarf hagnýting af því að vera af kynferðislegum toga, nauðungarvinna eða brottnám líffæra. Þessu stendur til að breyta og samkvæmt frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi verður hugtakið víkkað þannig að það nái einnig yfir hluti eins og nauðungarhjónabönd, betl og þvingun til að stunda skipulagða brotastarfsemi. Alda Hrönn segir þessar breytingar, og fleiri, mjög til bóta.

Varðandi málin sem þegar hafa verið tilkynnt til Bjarkarhlíðar segir Alda Hrönn stöðuna á þeim misjafna og í einhverjum tilvikum séu þolendurnir farnir úr landi. „Sum eru í gangi og er þá bara verið að vinna með lögregluyfirvöldum og öðrum hlutaðeigandi, félagsþjónustu og svo framvegis til að tryggja þeim verða fyrir mansali rétt og lífsviðurværi. En önnur getum við kannski lítið gert í,“ segir Alda Hrönn.