Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Betra að fara að gosinu á morgun fremur en í dag

Myndir sem voru teknar aðfarnótt 19. Apríl í ferð sem var farin til þess að gera við vefmyndavélar.
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Aðstæður eru slæmar fyrir þau sem vilja fara að gosinu í Geldingadölum í dag. Þó nokkur uppbygging er nú í gangi við gosstöðvarnar og stefnt að lagningu ljósleiðara og rafmagns á næstu dögum.

Í dag er mánuður síðan eldgos hófst í Geldingadölum. Á þessum fjórum vikum hafa sex gígar myndast og fjórtán komma fjórar 14,4 milljónir rúmmetra af hrauni flætt upp á yfirborðið. 

Vosbúð við gosið í dag

Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, segir aðstæður ekki skaplegar til að fara og berja gosið augum í dag.

„Það er núna suðlæg átt, tíu metrar á sekúndu við gosstöðvarnar og gengur á með éljum sem geta verið nokkuð dimm og hitastig er við frostmark þannig það getur verið dálítil vosbúð.“

Á morgun verði éljagangurinn yfirstaðinn og aðstæður betri. 

Mengun berst að öllum líkindum í átt að höfuðborgarsvæðinu síðar í dag þegar vindur snýst í suðvestan- og svo vestanátt. Helga segir að ekki sé búist við mikilli mengun en ráðlegt sé að fylgjast með á loftgæði.is.

Mölburður, rafmagn og ljósleiðari

Stikaða gönguleiðin að gosstöðvunum er í slæmu ástandi eftir átroðning gosþyrstra ferðalanga síðustu vikur. Nú er verið að bera möl í leiðina til að bæta aðgengi og vernda náttúruna en Fannar Jónsson bæjarstjóri í Grindavík segist ekki geta sagt til um hvenær það klárast.

„Þetta er frekar tímafrekt því að það er verið að gæta að því að valda ekki frekari spjöllum á landinu, þannig að þær vélar sem fara þarna um, þær þurfa að vera kannski sérstaklega útbúnar.“

Auk þess eigi að koma upp fjarskiptasendum á Langahrygg og Festarfjalli. 

Fannar vonast til að hægt verði að hefjast handa við að leggja rafmagn og ljósleiðara að gosstöðvunum á næstu dögum. Með því verði meðal annars hægt að setja upp lýsingu á bílaplaninu við Suðurstrandarveg og bæta aðstæður fyrir lögreglu og björgunarsveitir. Unnið er að því að finna fjármagn til verksins.

„Þessi framkvæmd kostar tugi milljóna. Við höfum leitað til ríkisvaldsins, haft samband við ráðherra meðal annars til þess að fjármagna þetta. Svo eru veitufyrirtæki sem koma að þessu líka.“