Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Annað sóttkvíarbrotið í rannsókn - beðið eftir hinu

19.04.2021 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hafið rannsókn á öðru sóttkvíarbrotinu sem er talið hafa leitt til mikillar útbreiðslu á kórónuveirusmitum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs, í samtali við fréttastofu. Beðið er eftir upplýsingum um hitt brotið en Hulda segir að miðað við upplýsingar í fjölmiðlum sé ljóst að það verði einnig rannsakað af lögreglu.

Almannavarnir sendu síðdegis út tilkynningu þar sem fólki var ráðlagt að forðast mannmarga staði, halda mannamótum í lágmarki og ferðast ekki milli landshluta nema brýna nauðsyn bæri til. Það væri áhyggjuefni hversu hratt smitum hefði fjölgað og næstu dagar segðu mikið til um framhaldið. 

27 greindust með kórónuveirusmit í gær, þar af 25 í sóttkví, og haldinn var auka-upplýsingafundar í morgun. Ekki hefur verið boðað til hertra aðgerða innanlands en tæp vika er síðan að slakað var á þeim,  líkamsræktarstöðvar og sundlaugar opnaðar og íþróttastarf fullorðinna og barna hófst að nýju.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að þessa hröðu útbreiðslu smita megi rekja til tveggja brota á sóttkví eftir komuna til landsins. 

Í öðru kom farþegi til landsins um mánaðamótin og virti ekki reglur um fimm daga sóttkví. Lögreglan hefur þegar hafið rannsókn á því máli.  Hulda Elsa segir að beðið sé eftir upplýsingum um hitt brotið en miðað við það sem komið hafi fram í fjölmiðlum kalli það einnig á rannsókn lögreglu.

Sektir fyrir brot á sóttkví geta numið frá 50 til 250 þúsund krónum. Ríkissaksóknari hefur mælst til þess að ákærendur meti hvert tilvik fyrir sig og ákvarði sektarfjárhæð með hliðsjón af alvarleika brotsins. Þau geti verið mismunandi og þar með misalvarleg.   

Hulda Elsa segir að gert hafi verið ráð fyrir að brot á sóttvarnareglum yrðu afgreidd á 3 til 4 mánuðum en vegna álags hjá lögreglunni sé ljóst að sá tími eigi eftir að lengjast. Lögreglan hefur til að mynda ekki afgreitt mál Ásmundarsalar sem kom upp á Þorláksmessu og vakti mikla athygli þegar í ljós kom að einn gesta var Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.

Fram kom á visir.is í dag að þrír ferðamenn sem hefðu verið sektaðir um samtals 750 þúsund fyrir brot á sóttkví hefðu ekki greitt sektina. Hulda Elsa vildi ekki tjá sig um það mál en sagði að ef menn greiddu ekki sekt væri næsta skref að gefa út ákæru.   Ef ekki tækist að hafa upp á mönnum væri stundum leitað til erlendra löggæsluyfirvalda en það færi þó eftir alvarleika brotanna.

Fyrningafrestur sekta er tvö ár og hið sama gildir um brot á sóttvarnalögum.