Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill forgangsraða starfsfólki leikskóla í hópi átta

18.04.2021 - 17:39
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að hópsmitið á Jörfa valdi miklum vonbrigðum og sýni hversu útsmogin veiran er. Margir leikskólakennarar hafa lýst furðu á því að starfsfólk leikskólanna hafi ekki verið bólusett í ljósi þeirrar áherslu sem hefur verið lögð á að halda leikskólunum opnum. Haraldur Freyr segir málefnaleg rök fyrir því að starfsfólki leikskóla verði forgangsraðað þegar kemur að áttunda hóp í forgangsröðun bólusetningar, sem þeir tilheyra.

Í það minnsta tíu smit tengjast Jörfa, níu hjá starfsfólki og eitt hjá barni. Fyrsta smitið var greint á föstudag og þeim fjölgaði hratt í gær. Fólk var hvatt til að mæta í skimun í dag og nokkur hundruð gætu þurft að fara í sóttkví.

„Það sýnir enn og aftur hversu útsmogin þessi veira raunverulega er,“ segir Haraldur Freyr um smitið. „Það veldur okkur auðvitað miklum vonbrigðum að svona komi upp núna, sérstaklega eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að það er vegna sóttkvíarbrota á landamærunum. Þótt enginn vilji standa í einhvers konar smitskömmun eða slíku hljótum við að kalla eftir því að einstaklingar sýni af sér ábyrga hegðun og fari eftir tilmælum sóttvarnaryfirvalda. Það er ekkert mjög ósanngjarnt að gera þá kröfu.“

Bíða bólusetningar

Starfsfólk leikskóla er í forgangshópi átta, á eftir fólki með langvinna sjúkdóma sem er viðkvæmt fyrir COVID. Haraldur lýsir skilningi á því að fólk með langvinna sjúkdóma sé á undan kennurum í forgangsröðinni. „Það eru að samt að mínu mati alveg málefnaleg rök fyrir því, einmitt vegna þess hve erfitt er að hafa nálægðartakmarkanir í leikskólum að starfsfólk leikskóla verði í forgangi í hópi átta. Ég hef komið því skýrt til skila á fundi með Þórólfi að svo verði og vonandi verður það niðurstaðan.“

Þorri starfsmanna leikskólanna bíður bólusetningar en nokkrir hafa fengið tíma eða verið bólusettir þar sem þeir tilheyra einnig öðrum hópum í forgangsröðun, svo sem vegna aldurs.