Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Um hugrekki

Mynd: EPA / EPA

Um hugrekki

18.04.2021 - 14:00

Höfundar

María Elísabet Bragadóttir rithöfundur veltir fyrir sér hugrekki og hræðslu í fjórða og síðasta pistlinum í pistlaröð sinni, Sannleikskornum.

María Elísabet Bragadóttir skrifar:

Við tölum oft um að við skiljum ekki aðra, eins og það sé hræðilegt mál. Ég bara skil hana ekki, segjum við. Ég bara skil ekki hvað hún er að hugsa. En sjaldnast skiljum við einu sinni okkur sjálf. Ef við náum ekki til botns í okkar eigin huga, af hverju ætlumst við þá til þess að ná til botns í öðru fólki? Það sem okkur finnst jafnvel verra en að skilja ekki aðra, er að gruna fólk um að eiga beinagrindur í felum. Við segjum: Þau eru með einhverjar beinagrindur í skápnum. Yfirborðið er slétt og fallegt en þarna undir niðri er heill kirkjugarður. Eins og það sé það alveg skelfilegt, eins og það sé hræðilegt. Auðvitað hræðist ég beinagrindur í skápum, eins og ég hræðist hyldýpið sem gæti leynst undir yfirborðinu, en það er annað sem ég hræðist enn meira. Ég kem að því á eftir. Fyrst ætla ég að tala um það að vera hrædd og það að sitja föst í stórum tebolla.

Þegar ég var barn óttaðist ég allt mögulegt. Ef ég hefði verið spurð álits um það hvort ég vildi yfirhöfuð fæðast, hefði ég örugglega afþakkað það af einskærri lífhræðslu. Það var ekki hluti af sjálfsmynd minni þegar ég var barn eða unglingur, að ég væri hugrökk. Ég fór ekki í rennibrautina í sundi, heldur sat og soðnaði í heita pottinum, fylgdist fýld á svip með öðrum börnum renna sér. Ef fjölskyldan fór í tívolí, þá var ég í samfloti með þremur hugrökkum og sjálfstæðum systkinum mínum sem fóru í fallturna og fljúgandi töfrateppi, en sjálf þorði ég ekki einu sinni að fara í Parísarhjólið. Ég var hrædd um að festast uppi. Ég var hrædd um að það myndi einhver vitleysingur láta slag standa og leggja eld að tækinu og að á meðan logarnir teygðu sig upp hjólið ætti ég engra annarra kosta völ en að stökkva út úr litla vagninum mínum, hrapa niður 50 metra og binda enda á rúmlega áratugsgamalt líf mitt. Ef ég var tilneydd að sýna einhvern lit, þá var það helst að ég vogaði mér um borð í tebollahringekju, þótt mér væri það þvert um geð, og sat þar ásamt skilningsvana smábörnum. Tebollar í yfirstærð hreyfðust afar hægt, snerust silalega um sjálfa sig í takt við höktandi vögguvísu úr biluðu hátalarakerfi. Sum barnanna orguðu, önnur skríktu af gleði. Öll áttu þau sameiginlegt að skilja ekki hvað var að gerast, hvort það var eitthvað í húfi eða alls ekki neitt. Þau voru með snuð og stuttu og feitu fæturnir þeirra náðu ekki út fyrir stólsetuna. Og svo var það ég, sem sat ein, hélt mér dauðahaldi. Ég á mynd af mér þrettán ára gamalli í tebolla, neyðarlega skankalangri og óþægilega nærri því að vera lögráða miðað við félagsskapinn sem ég var í. Þótt ég væri í raun sæmilega seinþroska, þá er andlitið á myndinni eins og á aldurhniginni konu. Það er tálgað af tortryggni og pirringi en undirniðri er það líka skelkað.

Af hverju er ég í þessum tebolla, spyr andlitið á myndinni. Þetta er þrettán ára gamalt andlit en minnir á andlit gamallar konu sem hefur fengið úthlutað plássi á dvalarheimili fyrir aldraða.

Hvað er ég að gera í þessum tebolla? Og börnin hennar, sem eru miðaldra og hafa nóg á sinni könnu, koma eins og þeytispjald og heimsækja hana og segja: Mamma mín, þetta er ekki tebolli, þú átt heima hérna. Hvað eiga börn og gamalmenni sameiginlegt? Stundum mæta þau skilningsleysi og daufum eyrum. Er það vegna þess að taugin sem tengir þau við lífið er viðkvæm? Það er svo stutt síðan börnin komu til lífs og kynntust því og stutt í að gamla fólkið kveðji það og hverfi frá því. Okkur finnst það kannski óþægilegt, og kannski óskiljanlegt. Við viljum ekki vita af því. Vertu kyrr í þessum tebolla. Þetta er ekki tebolli. Þetta er leiktæki. Þetta er heimili. Af hverju skilurðu það ekki? Við skiljum þig ekki. Þetta er bæði skemmtilegt og gott. Þetta er gaman. En það er ekkert að óttast.

Hugrekki er ekki að þora að gera eitthvað, heldur að gera eitthvað sem þú í rauninni þorir ekki að gera. Það þarf ekki hugrekki til brjóta reglurnar ef reglurnar eru sniðnar þannig að þær verði auðveldlega brotnar af manneskju sem er akkúrat eins og þú sjálf. Þú þarft að vera hrædd. Það er algjört lykilatriði. Það er ekki hugrekki að fara í fallhlífarstökk ef þú ert ekki lofthrædd. Það er ekki hugrekki að lesa ljóð upp á sviði ef þér verður ekki óglatt við tilhugsunina. Það er ekki hugrekki að svara einhverjum fullum hálsi ef þú ert ekki með kaldsveitta lófa. Ef þú hugsar ekki: Ég er að fara að missa vinnuna núna og ég verð atvinnulaus það sem eftir er. En samt verð ég að gera það. Ég verð að gera það. Eða jafnvel: Fólk mun fyrirlíta mig þegar ég hef afhjúpað mig svona. Það mun fyllast viðbjóði. En ég verð að gera það. Ég verð.

Ef þú hins vegar hugsar: Það breytir engu þótt ég láti til skarar skríða, líf mitt mun haldast óbreytt. Ég óttast ekkert, það er ekkert í húfi. Þá er hugsanlegt að þú hafir rétt fyrir þér, ekkert sé í húfi. Það er samt líka hugsanlegt að þú sért óafvitandi í þann mund að fara að valda stórtækum breytingum á eigin lífi, og gera eitthvað sem fáir aðrir myndu dirfast að gera. En það þýðir ekki, að þú sért hugrökk.

Fyrir hræðslugjarna manneskju, getur það krafist hugrekkis að fara í tívolítæki, því hún óttast þann fræðilega möguleika að hún verði að fórna lífi sínu fyrir andartak af útsýni og stemningu. Hún þurfi að fleygja sér úr skíðlogandi parísarhjóli, velja á milli þess að hrapa til dauða eða stikna. En hugrekki getur líka átt sér lágstemmdari birtingarmyndir, fólk getur verið hrætt og óttaslegið af ástæðum sem öðru fólki finnst ómerkilegar. Að því sögðu er rétt að nefna, að varla finnst kænna eða lymskulegra valdkúgunartæki en að segja að eitthvað sé ómerkilegt. Þetta er það sem hefur verið sagt við minnihlutahópa frá upphafi vega. Að einhverjar hugmyndir séu ómerkilegar, það þurfi ekki að ræða þær, því þær hafi engan relevans, eða að fólki finnst þær óskiljanlegar, óþægilegar, jafnvel hræðilegar og stundum ekki einu sinni raunverulegar. En það eina sem manneskja á sannarlega í lífinu er skynjun hennar á heiminum og hugsanirnar sem spretta af henni. Manneskjan á skömmina og skelfinguna. Hún þarf að fá að eiga sínar beinagrindur, þær eru hennar efniviður. Að segja að það sé ómerkilegt, er að segja að líf hennar skipti ekki máli.

Ég er ekki óttalaus við það sem leynist undir yfirborðinu en ég hræðist mun frekar að sú saga fari á kreik að það séu engin undirdjúp og það eigi ekki að vera til neitt hyldýpi. Og sagan verði hægt og rólega að sannleika: Að undir yfirborðinu sé annað yfirborð, og undir því enn annað, og síðan koll af kolli. Eða skápahurðunum sé svipt frá og þar blasi við okkur aðrar skápahurðir, svo enn aðrar, og síðan koll af kolli, þar til við lendum kannski á steyptum vegg. Hvað er ég að gera í þessum tebolla? Það sem á að vera skiljanlegt, er oft óskiljanlegt. Það sem á að vera gaman, það er oft svo leiðinlegt. Að fara í tívolí, að eiga afmæli, jólaglögg með vinnufélögunum sem þú átt ekkert sameiginlegt með utan við stimpilklukkuna, fermingarveislur þótt foreldrar móðgist við að heyra það sagt upphátt. Allt sem gefur fólki tilefni til að sleppa dúfum, sprengja konfettí, loka sig grátandi af inni á klósetti á safnaðarheimilinu, skvetta vatni framan í sig og segja síðan: Við verðum að ná einni hópmynd. Stundum getur það eitt að viðurkenna að undir yfirborðinu, sé ekki annað yfirborð heldur dýpi, þegar enginn vill af því vita, verið hugrekkið í sinni tærustu mynd. Þau sem eru hrædd, þau sem eru með hjartslátt og þau sem eru með sveitta lófa en horfast í augu við hyldýpið, þau ein geta verið hugrökk.

Tengdar fréttir

Pistlar

Krabbadýr sem ljómar í myrkri

Pistlar

Við erum búin til úr tíma