Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þó nokkrir ferðamenn kjósa að dvelja í sóttvarnahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Um þrjátíu ferðamenn fóru í sóttvarnahúsið á FossHótel Reykjavík í Þórunnartúni eftir komuna til landsins í gær og búist er við svipuðum fjölda í dag. Þar dvelja nú 160 manns, aðallega erlendir ferðamenn. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa, segir að það sé mikil óvissa um það á hverjum degi hversu margir kjósa að dvelja á hótelinu, en að jafnaði séu það um það bil 10 manns úr hverri flugvél.

Síðan dvölin þar var gerð valkvæð fyrir alla sem koma til landsins, eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að stjórnvöld mættu ekki skikka þangað fólk frá ákveðnum svæðum, hafa í mesta lagi komið þangað um það bil 80 á einum degi.

„Þetta gengur mjög vel. Þeir sem fá aðeins að hreyfa sig fá skýrar leiðbeiningar um það hvernig það á að vera. En það hefur gerst að fólk brjóti sóttkví, jafnvel þótt það fái skýrar leiðbeiningar um það hvernig á að gera það. Þetta eru fá tilfelli, en fólk hefur samt sem áður brotið sóttkví,“ segir Gylfi. 

49 dvelja nú á farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg og þar af eru 26 í einangrun. Gylfi segir að þó nokkuð hafi fjölgað þar í gær í tengslum við ný smit innanlands.