Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tékkar reka 18 Rússa úr landi vegna sprenginga 2014

18.04.2021 - 03:35
epa09142044 Czech Foreign Minister Jan Hamacek (L) and Czech Prime Minister Andrej Babis (R) address a joint press conference, at the Czernin Palace in Prague, Czech Republic, 17 April 2021. According to the findings of the Czech security forces, there is reasonable suspicion that members of the Russian secret service GRU were involved in the explosion of the ammunition complex in Vrbetice in 2014, said Prime Minister Babis. Foreign Minister Jan Hamacek expelled all diplomats who were identified as members of the Russian secret services GRU and SVR. In all 18 people. They have 48 hours to leave the Czech Republic.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
Jan Hamáček, innan- og utanríkisráðherra Tékklands, og Andrej Babiš, forsætisráðherra, greina frá ákvörðun stjórnvalda um að reka 18 rússneska erindreka úr landi. Mynd: EPA-EFE - EPA
Tékknesk stjórnvöld saka Rússa og rússnesku leyniþjónustuna um að hafa átt aðild að mannskæðum sprengingum í skotfæra- og sprengiefnageymslum í Tékklandi árið 2014. Því hafi verið ákveðið að vísa úr landi 18 starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Prag, sem sannað þykir að allir séu þar á vegum rússneskra leyniþjónustustofnana. Tveir menn sem grunaðir eru um að hafa eitrað fyrir Sergei Skripal í Bretlandi 2018 eru á meðal grunaðra. Rússnesk stjórnvöld segja þetta fráleitar ásakanir.

Pólitískur leikaraskapur

Innanríkisráðherra Tékklands og jafnframt starfandi utanríkisráðherra landsins, Jan Hamáček, greindi frá ákvörðun stjórnvalda um brottrekstur erindrekanna átján á laugardag. Þeir fá tvo sólarhringa til að koma sér úr landi. Rússar hafa þegar brugðist við þessum tíðindum og segja ásakanir Tékka úr lausu lofti gripnar.

Talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, María Sakarova, sagði stjórnvöld í Prag eflaust fyllilega meðvituð um það, hvaða afleiðingar svona pólitískur leikaraskapur hafi í för með sér, og sagði að viðbrögð rússneskra stjórvalda yrðu í samræmi við tilefnið.

Hætti við Moskvuferð með stuttum fyrivara

Tilkynningin um brottrekstur sendiráðsmannanna kemur fast á hæla mikilla deilna um fyrirhugaða Moskvuferð Hamáčeks. Þar hugðist hann ræða við fulltrúa rússneskra stjórnvalda á mánudag, um möguleg kaup á rússneska Spútnik-bóluefninu.

Hamáček sá sig þó knúinn til að hætta við Moskvuferðina eftir harða gagnrýni frá hvorutveggja þingmönnum stjórnarandstöðunnar og forsætisráðherranum Andrej Babiš.

Meintir eiturbyrlarar Skripals grunaðir um aðild að sprengingum 2014

Forsaga þessa máls er sú að í október og desember 2014 urðu tvær miklar sprengingar í skotfæra- og sprengiefnageymslu nærri smábænum Vláchovice í austanverðu Tékklandi. Tveir öryggisverðir dóu í fyrri sprengingunni og gríðarlegt tjón varð á mannvirkjum. Auk þess voru handsprengjur og skothylki að springa hér og þar í nágrenni skotfærageymslunnar og bæjarins vikum saman eftir stóru sprengingarnar, með tilheyrandi hættu fyrir fólk og skepnur.

Rannsókn á tildrögum sprenginganna hefur staðið allar götur síðan og stendur enn. Í gær birti tékkneska lögreglan myndir af tveimur mönnum, sem taldir eru rússneskir leyniþjónustumenn og sagðir eru hafa verið í Tékklandi þegar fyrsta sprengingin varð. Lögreglan hefur heimildir fyrir því að til þeirra hafi sést hvorttveggja í Prag og í nágrenni skotfærageymslunnar á þessum tíma og óskar eftir frekari upplýsingum um ferðir þeirra.

Þessir sömu menn, sem gengið hafa undir nöfnunum Alexander Petrov og Ruslan Boshirov, eru eftirlýstir í Bretlandi, grunaðir um að hafa eitrað fyrir Rússanum Sergei Skripal og dóttur hans Yuliu í bænum Salisbury á Englandi í mars 2018.

Eftir að breska lögreglan lýsti eftir þeim komu þeir fram í rússnesku sjónvarpi undir nöfnunum Alexander Mishkin og Anatoliy Chepiga. Sögðust þeir vera íþróttanæringarfræðingar og hafa verið að skoða hina víðfrægu dómkirkju Salisbury en ekki eitra fyrir einum eða neinum.