Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stofnuðu náttúruklúbb og tína rusl um helgar

18.04.2021 - 19:27
Mynd: RÚV / Skjáskot
Sjö stelpur úr Laugarneshverfi stofnuðu náttúruklúbb eftir að hafa heyrt um loftslagsbaráttukonuna Gretu Thunberg. Þær tína rusl og hvetja aðra krakka til að vinna að umhverfisvernd. Fullorðnir eru velkomnir í Náttúruklúbbinn.

Á sunnudögum fara stelpurnar í 4-S í Laugarnesskóla út að tína rusl í hverfinu sínu eins og þær hafa gert undanfarnar helgar. 

„Þetta er Náttúruklúbburinn,“ segir ein stelpnanna, Auður Freyja Kolbeinsdóttir. Hverjir eru í Náttúruklúbbnum? „Ég, Sóley, Agnes, Sigrún, Ayja, Sólveig og Svanborg.“
Hvað gerir maður í Náttúruklúbb? „Tínir rusl og reynir að menga sem minnst.“ Hvernig reynir maður að menga sem minnst? „Með því að labba og hjóla meira og sóa minni mat.“

„Við hvetjum öll börn til að stofna náttúruklúbb,“ segir Svanborg Helena Pétursdóttir félagi í Náttúruklúbbnum.

Stelpurnar hafa allar mikinn áhuga á umhverfismálum. Þær eru hættar að láta keyra sig í skólann og segja að allir geti lagt sitt af mörkum til að vernda umhverfið og náttúruna.

Sóley Ylfa Helgadóttir segir að hugmyndin hafi kviknað eftir að kennari stelpannna sagði þeim frá Gretu Thunberg og baráttu henni fyrir loftslags- og umhverfisvernd. „Og þannig bara byrjuðum við allar,“ segir Sóley Ylfa.

Agnes Ísabella Hjaltadóttir segir að stelpurnar sjái mun á hverfinu eftir að þær fóru að hreinsa þar til. „En ekki mikinn - við erum bara sjö að gera þetta. Svo við mælum með að fólk geri meira svona.“

Þannig að þið viljið fá fleiri í Náttúruklúbbinn?  „Já. Er hann bara fyrir krakka, eða geta fullorðnir verið með? Fullorðnir geta líka verið með,“ segir Agnes Ísabella.