Smit síðustu daga rakin til sóttkvíarbrots á landamærum

18.04.2021 - 17:44
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Þau smit sem greinst hafa síðustu daga eru rakin til einstaklings sem virti ekki reglur um sóttkví eftir komuna til landsins í kringum mánaðamótin. Þetta segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna og landlæknisembættisins. 13 smit greindust innanlands í gær, fimm þeirra sem greindust voru í sóttkví en höfðu verið það mjög stutt.

„Það er alveg ljóst að við búum við þá áhættu núna að veira komist inn í gegnum landamærin og það hefur þessar afleiðingar í för með sér,“ segir Jóhann. 

Mikið verk fyrir rakningarteymið

Hann segir rakningarteymið eiga heilmikið verk fyrir höndum og að nú þegar hafi verið unnin mikil vinna við rakningu. „Það er búin að vera dálítil vinna núna að ná utan um þetta og það er oft mikil vinna þegar við komum seint inn í þetta. Við erum til dæmis að sjá fólk sem var útsett fyrir viku síðan og við erum að vinna aðgerðir í kringum það,“ segir hann.

Eins og hvað þá?

„Til dæmis núna í tengslum við veitingastað þar sem við erum að skima fólk sem hafði verið þar.“

Heilu heimilin í sóttkví

Rúmlega 250 hafa verið sendir í sóttkví síðustu daga en Jóhann segir að smitin í leikskólanum tengist ekki beint smitunum tveimur sem greindust á föstudag hjá starfsfólki í matvælafyrirtæki. 

Fjölskyldur barna á leikskólanum Jörfa eru í sóttkví ásamt börnunum. „Samkvæmt nýrri reglugerð þarf allt heimili þeirra sem eru í sóttkví að fara í sóttkví. Þetta er pínu snúin staða núna með þennan hóp því við teljum að þetta sé útsetning sem átti sér stað dálítið áður og þess vegna beinum við þeim tilmælum til þessa hóps að fjölskyldur haldi sig í sóttkví saman. Það er ákveðin áhætta fólgin í því ef einhver fer út af heimilinu og á annað heimili. Sá möguleiki er að hann geti borið með sér veiruna,“ segir Jóhann.

Enn sé með öllu óljóst hversu langan tíma taki að ná utan um smitin: „Það kemur í ljós hversu fljótt sóttkvíin nær að grípa þessa hópa sem eru að myndast. Það er búið að girða fyrir smitin í leikskólanum en ef þetta er komið á aðra staði þurfum við að elta þetta uppi og það getur tekið tíma.“