Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Salvini fyrir rétt í september, ákærður fyrir mannrán

epa08173325 Italian Lega party's Secretary, Matteo Salvini, attends the Raiuno Italian program 'Porta a porta' conducted by Italian journalist Bruno Vespa in Rome, Italy, 28 January 2020.  EPA-EFE/ETTORE FERRARI
Matteo Salvini. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Dómari hefur úrskurðað að Matteo Salvini, formaður Norðurbandalagsins og fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, verði að mæta fyrir rétt í Palermo á Sikiley hinn 15. september næstkomandi. Hann er ákærður fyrir mannrán þegar hann kom í veg fyrir að um hundraði flótta- og förufólks um borð í björgunarskipinu Open Arms yrði hleypt í land í ágúst í fyrra.

Þurfti fólkið að halda kyrru fyrir í skipinu um þriggja vikna skeið við illan kost áður en saksóknari fyrirskipaði að skipið skyldi haldlagt og fólkinu hleypt í land á eyjunni Lampedusa.

Skammarlegt að nota neyð fólks í áróðursskyni

Oscar Camps, stofnandi spænsku hjálparsamtakanna sem gerðu björgunarskipið út, fagnar úrskurði dómarans. Camps segir það skammarlega framkomu að brjóta gegn grundvallarmannréttindum og alþjóðalögum um vernd fólks í hafnauð í pólitísku áróðursskyni.

Salvini leiðir enn Norðurbandalagið og er enn á þingi, en hefur verið sviptur þinghelgi vegna þessa máls. Hann kom ítrekað í veg fyrir að björgunarskip fengju að sigla í ítalska höfn þá fjórtán mánuði sem hann gegndi embætti innanríkisráðherra.

Hann segist ganga hnarreistur fyrir dómarann þegar þar að kemur. Það sé heilög skylda sérhvers borgara að verja öryggi lands síns og það sé það sem hann hafi gert og sé nú ákærður fyrir. Verði hann sakfelldur á Salvini allt að 15 ára fangelsi yfir höfði sér.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV