Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Óttast að þurfa að skera bústofninn vegna eldgoss

„Ég er búin að hafa áhyggjur frá fyrsta kvöldi, ég óska þess heitast að þetta heitasta helvíti hætti strax í dag,“ segir Grétar Jónsson, formaður fjáreigendafélagsins í Grindavík sem óttast að flúormengun frá eldgosinu spilli beitarhögunum í sumar og að hann þurfi að skera bústofninn. 

Nú er sauðburður á næsta leiti og því fylgja ýmis verkefni, til dæmis að bólusetja kindurnar.  Í Grindavík eru í kringum 330 vetrarfóðraðar kindur en nú er svo komið að það er eldgos í næsta nágrenni við sumarhagana þar sem kindunum er sleppt á sumrin. 

Á morgun hefur gosið í Geldingadölum í mánuð. Beitarhólfið er við Núpshlíðarháls, í fjögurra kílómetra beinni loftlínu frá gossvæðinu. „Ef eitthvað skeður getur vel verið að við þurfum að skera allt saman. Það getur komið upp sú staða sko. En sem betur fer er ríkjandi vindátt suðaustan hérna. Þannig það fer ekki yfir Grindavík, en í norðaustan átt er það miklu verra,“ segir hann.

Vel fylgst með gosmengun á svæðinu

Grétar hefur áhyggjur af flúormengun frá eldgosinu sem er skaðleg dýrum. „Ef það verða eitranir mældar, þá megum við ekki gefa heyið og nýta túnin. Það verður erfitt. Einhverjir kannski geta haldið áfram en flestir gefast upp á endanum.“

Vísindamenn fylgjast vel með sýrustigi úrkomunnar á öllum Reykjanesskaga. Hingað til hefur aðeins mælst staðbundin gosmengun í regnvatni við gossvæðið sjálft en ekki í næsta nágrenni við það. 

Þórlaug Guðmundsdóttir, bóndi, á 90 kindur og deilir áhyggjum Grétars af sumrinu. „Ef það kemur mengun yfir hefur þetta mikil áhrif á sumarhagana okkar. Við verðum bara að hafa þær heima.“

Gengur það? „Við látum það ganga. Það verður erfitt. Þær vilja fara þangað sem þær eru vanar að fara á sumrin,“ segir Þórlaug.

Það eru tvö haust-beitarhólf í Grindavík en þar rúmast ekki allar kindurnar sem þurfa yfir sumartímann. „Þetta er voðalega erfitt af því manni þykir vænt um kindurnar,“ segir hún jafnframt.