Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Deildu um ágæti þess að leggja Nýsköpunarmiðstöð niður

18.04.2021 - 15:52
Niðurlagning Nýsköpunarmiðstöðvar stórskaðar nýsköpunarumhverfi landsins, segir Smári McCarthy, þingmaður Pírata. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir þetta hluta af því að draga úr opinberum umsvifum og einfalda regluverk.

Alþingi samþykkti í vikunni lög um að leggja Nýsköpunarmiðstöð Íslands niður. Málið var umdeilt og meirihluti umsagna neikvæður í garð breytingarinnar.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, sagði í Silfrinu, að málið liti út eins og fyrst hafi verið ákveðið að leggja niður stofnunina og svo kanna áhrifin. „Staðreyndin er að þarna er búið að vinna stórskaða á nýsköpunarumhverfi Íslands og við vitum ekki nákvæmlega hversu langan tíma það tekur að rétta úr kútnum, þrátt fyrir eflaust mjög góðar meiningar. Það er ekki nóg að hafa góðar meiningar ef það er ekki gott plan á bak við það.“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, sagðist telja að þetta yrði ekki jafn mikið áfall fyrir nýsköpun og haldið væri fram. „Þetta er nú bara  hluti af vegferð sem hefur staðið til þar sem ráðherra er að draga úr opinberum umsvifum og hefur verið í því að einfalda regluverk og annað. Þetta er hluti af þeirri vegferð og ég ber fullt traust til ráðherra, Þórdísar Kolbrúnar, á þeirri vegferð. Þetta er eitthvað sem ég myndi kalla meira eftir, að við séum að draga úr opinberum umsvifum og hagræða í opinberum rekstri.“

Margrét Tryggvadóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, lýsti áhyggjum af því að eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmdavaldinu væri veikt. „Það að gera stofnun að einkahlutafélagi í eigu ríkisins er ekki að draga úr neinu bákni. Það er bara að veikja kerfið, valda því að þingið getur ekki haft eftirlit og mér finnst þetta rugla í hlutunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: 360° vefur - Já.is

Einnig var deilt um áform fjármálaráðherra um að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra og flytja verkefni þess til ríkisskattstjóra og héraðssaksóknara. Frumvarpið er til umræðu á Alþingi.

Smári lýsti áhyggjum af efni frumvarpsins. Hann kvað það hluta af mynstri hjá ríkisstjórninni um að veikja eftirlitsstofnanir. „Á hvaða tímapunkti segjum við að það er búið að veikja stofnanir ríkisins, allar þær sem hafa eitthvað með eftirlit eða aðhald með valdamiklu fólki, valdamiklum fyrirtækjum og svo framvegis að gera, að því marki að það sé ekki lengur hægt að segja að það sé verið að sinna þessum verkefnum?“

Hildur andmælti því. „Með þessum breytingum er í sjálfu sér kannski ekki verið að leggja niður embætti heldur sameina, og það er verið að reyna að tryggja réttláta, einfalda og hraða málsmeðferð sem ég held að séu allt saman jákvæð skref.“

Frumvarpið er lagt fram eftir dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um bann við tvöfaldri refsingu og um meðferð mála sem eru til rannsóknar hjá fleiri en einu embætti.