
Bandaríkin og Kína heita samvinnu í loftslagsmálum
Þar kemur fram að þeir hafi komið sér saman um hvorttveggja skýrt afmarkaðar og almennari aðgerðir í því augnamiði að uppfylla markmið Parísarsáttmálans um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun Jarðar.
Heita markvissum aðgerðum og aðstoð við fátækari ríki
Í yfirlýsingunni segir að Bandaríkin og Kína [séu] staðráðin í að vinna að því í sameiningu og í samvinnu við önnur lönd að takast á við loftslagsvána, sem nauðsynlegt er að bregðast við af þeirri alvöru og hraða sem hún kallar á.“
Kveðið er á um að bæði ríki - sem menga allra ríkja mest og eru uppspretta ríflega 40 prósenta allrar losunar koldíoxíðs í heiminum - grípi til markvissra aðgerða strax á þessum áratug til að draga úr losun og halda hlýnun Jarðar innan þeirra marka sem Parísarsáttmálinn kveður á um.
Þá er mælt fyrir um að stórveldin aðstoði fátækari ríki að fjármagna orkuskipti, úr jarðefnaeldsneyti yfir í endurnýjanlega og umhverfisvænni orkugjafa.
Joe Biden, Bandaríkjaforseti, bauð til rafrænnar leiðtogaráðstefnu um loftslagsmál í komandi viku. Kínversk stjórnvöld hafa lýst ánægju sinni með það framtak en ekki liggur fyrir hvort Xi Jinping, Kínaforseti, muni sjálfur slást í hóp þeirra þjóðarleiðtoga sem þegar hafa boðað þátttöku sína.