„Virðist vera góð auglýsing fyrir Sputnik bóluefnið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Virðist vera góð auglýsing fyrir Sputnik bóluefnið“

17.04.2021 - 15:14

Höfundar

„Það er gaman að sjá að þetta sé ekki áferðarfallegur karlmaður í hvítum gallabuxum á skautum með allt of dýran led skjá sem hann flytur inn,“ segir Sigurður Þorri Gunnarsson um rússneska framlagið í Eurovision í ár.

Í fyrsta þætti Alla leið sem sýndur er í kvöld verður farið yfir fyrstu lögin í fyrri undankeppni Eurovision, sem haldin verður í Rotterdam í vor. Stjórnandi þáttarins er sem fyrr Felix Bergsson og fastir álitsgjafar eru þau Helga Möller og Sigurður Þorri Gunnarsson. Heiðursgestir í fyrsta þættinum verða Lovísa Árnadóttir fyrrverandi fréttkona og Doktor Gunni sem upplýsir á laugardag að hugmyndin að þáttunum sé frá honum komin.

Rússneska framlagið í ár flytur rússneska baráttukonan Manizha. Lagið heitir Russian Woman. Manizha er upprunalega flóttamaður frá Tadsjikistan og er hæfileikaríkur listamaður og baráttukona fyrir mannréttindum.

Lagið lagðist vel í dómnefndina og Doktor Gunni gefur laginu tíu stig en segir samt að það gæti verið betra. „Það er svolítið út og suður og ekki beint verið að fókusa á eitthvað eitt ákveðið.“ Hann fagnar því að framlagið sé sérstakt og ekki eins og önnur lög í keppninni. „Og flytjandinn er greinilega með bein í nefinu og sterk kvenímynd sem er alltaf gott að hafa.“

Lovísa gefur laginu tólf stig eða hæstu einkunn og segist algjörlega hafa fallið fyrir því. „Ég nálgast oft lögin frá Rússlandi með ákveðnum fordómum því miður og það kom mjög skemmtilega á óvart að sjá þetta,“ segir hún. „En svona eiga Eurovision lög dálítið að vera. Þetta er öðruvísi og einmitt dálítið skrýtið lag, það eru þjóðlega tilvísanir. Hún er að syngja á rússnesku og ensku og það eru skemmtilegir stælar í þessu. Ég dýrka þetta sko.“

Sigurður gefur laginu átta stig og tekur undir með Lovísu. „Þetta er frábært lag og ferskur vindur frá Rússlandi. Það er gaman að sjá að þetta sé ekki áferðarfallegur karlmaður í hvítum gallabuxum á skautum með allt of dýran led skjá sem hann flytur inn,“ segir hann. „Þetta virðist vera góð auglýsing fyrir Sputnik bóluefnið því að í myndbandinu virðist sem það hafi ekki verið neitt COVID, það er fullt af fólki og ég bara: Guð minn góður megið þið vera svona nálægt hvert öðru?“

Helga gefur laginu líka átta stig og hrósar tjáningunni í laginu og leikrænum tilþrifum. „Hún kemur þarna inn í svona hömlum í þessum kirtli sem náttúrulega segir frá gamla tímanum. Þetta er mjög mikil tjáning og ég fílaði það," segir Helga. „Svo kemur hún, hún er í þessum rauða samfestingi sem segir bara: Ég ætla að standa með konum hér og við bara stöndum saman. Og vonandi tekst þetta allt saman sem að verið er að flytja þarna í textanum sem maður skildi ekki nema að hluta til. Mér fannst það líka frábært og mér finnst alltaf frábært þegar lönd taka lögin sín á sínu móðurmáli.“

Fyrsti þáttur Alla leið er á dagskrá í kvöld klukkan 19:45.