Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Viðskiptaþvinganir og handtaka vegna Úkraínu

17.04.2021 - 12:37
epa09141100 An Ukrainian National flag waves behind the fence of the Ukrainian embassy in Moscow, Russia, 17 April 2021. The Federal Security Service of the Russian Federation announced that Ukrainian consul general Alexander Sosonyuk, on 16 April in St. Petersburg, was detained red-handed while receiving information of a classified nature during a meeting with a Russian citizen.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjamenn og Rússar hafa beitt þvingunum og brottvísunum utanríkisþjónustustarfsmanna hvor á annan undanfarna daga vegna deilna um hernað Rússa við Úkraínu. Spennan fer vaxandi, en þó er áfram stefnt að leiðtogafundi milli forseta landanna um samskipti þeirra á milli.

Spenna hefur farið vaxandi milli Rússa og Úkraínumanna undanfarnar vikur með auknum hernaði Rússa við landamæri Úkraínu austa- og norðan megin. Það er líka aukin spenna milli Rússa og Bandaríkjamanna eftir að þeir síðarnefndu lýstu yfir andstöðu við þennan hernað Rússa.

Eftir að bæði NATO og Bandaríkin kröfðust þess að Rússar kölluðu herlið sitt til baka, gripu Bandaríkjamenn til viðskiptaþvingana. Þær fela meðal annars í sér að heimild bandarískra banka til viðskipta í Rússlandi er þrengd enn frekar. Að auki voru tíu starfsmenn rússnesku utanríkisþjónustunnar í Bandaríkjunum sendir heim.

Rússar svöruðu í sömu mynt með því að reka tíu starfsmenn bandarísku utanríkisþjónustunnar frá Rússlandi. Þeir bönnuðu þar að auki nokkrum embættismönnum að koma til Rússlands - þar á meðal dómsmálaráðherranum og yfirmanni bandarísku alríkislögreglunnar, FBI. Þá segjast Rússar einnig ætla að loka hluta Svartahafsins í sex mánuði, en NATO hafði í hyggju að senda skip þangað til að tryggja að siglingaleiðir þar héldust opnar.

Í morgun tilkynnti svo rússneska öryggislögreglan að hún hefði handtekið embættismann hjá ræðismannaskrifstofu Úkraínu í St. Pétursborg í Rússlandi. Hann hefði verið í haldi í nokkrar klukkustundir en síðan sleppt. Ástæðan hafi verið að hann hafi verið nappaður á fundi með rússneskum manni við að fá afhentar trúnaðarupplýsingar. Gripið verði til viðeigandi ráðstafana. Talsmaður utanríkisráðuneytis Úkraínu sagði þetta enn eina aðgerð Rússa til ögrunar og þessu verði svarað fljótlega.

Þrátt fyrir þessa spennu hefur rússneska utanríkisráðuneytið tekið jákvætt í hugmynd Joe Biden Bandaríkjaforseta um leiðtogafund við Vladimír Pútín Rússlandsforseta. Þar á að ræða um samskipti ríkjanna. Rússar eru nú með málið til skoðunar. Finnar hafa þegar boðist til að halda þennan fund.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV