Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt gosop greindist á mælum áður en það sást

Mynd með færslu
 Mynd: Vefmyndavél - RÚV
Nýtt gosop myndaðist á gosstöðvunum á Reykjanesskaga í dag. Gosopið er þétt upp við einn gíganna sem fyrir eru og ekki ýkja stórt. Það er þó það fyrsta þar sem náttúruvársérfræðingar Veðurstofunnar sáu í hvað stefndi á mælitækjum sínum og létu athuga aðstæður á vettvangi.

Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur var á vaktinni þegar nýja opið myndaðist. „Við erum búin að vera mjög vakandi fyrir breytingum í óróa. Þær gefa oft góða hugmynd um breytingu á virkninni í gosinu. Við tókum eftir því um klukkan hálf tvö, tuttugu mínútur yfir eitt eða svoleiðis, og vorum bara að hinkra og sjá hvernig færi. Svo höfðum við samband við almannavarnir í kjölfarið.“ Almannavarnir sendu björgunarsveitarmenn á vettvang sem staðfestu að nýtt gosop hefði myndast. 

Þótt svo kraftarnir í eldgosinu séu miklir þá eru ummerkin umnýja gíga öllu minni. Þeirra hefur því hingað til orðið vart á staðnum og í vefmyndavélum. Nú gerðist það að náttúruvársérfræðingar gátu tengt ákveðna virkni við nýja opnun. „Þetta eru mjög lítil merki,“ segir Elísabet. „Við höfum séð mjög lítil merki áður. Þetta er í fyrsta sinn sem við bregðumst við. Við erum að læra af þessu gosi með hverjum deginum. Við erum alltaf að fá betri og betri verkfæri til að bregðast við. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta verður í framhaldinu.“

„Þetta er lítið gosop. Það frussast aðeins úr því. Það gæti alveg eins bara dáið út. Við þurfum bara að sjá hvernig framhaldið verður,“ segir Elísabet um stærðina.

Vísir sagði fyrst frá nýja gosopinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Vefmyndavél - RÚV
Sama svæði áður en nýja gosopið opnaðist.