Læknar segja Navalny við dauðans dyr

17.04.2021 - 23:31
epa08934340 Russian Opposition activist Alexei Navalny attends a rally in support of opposition candidates in the Moscow City Duma elections in downtown of Moscow, Russia, 20 July 2019 (reissued 13 January 2021). Navalny on 13 January 2021 stated on his Twitter account that he plans to travel to Moscow on Sunday, 17 January 2021.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Alexei Navalny. Mynd: EPA-EFE - EPA
Læknar rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans Alexeis Navalnys segja heilsu hans hafa hrakað bæði hratt og mikið síðustu daga og telja hann í bráðri lífshættu. Navalny, sem dæmdur var til fangelsisvistar í febrúar, hefur verið í mótmælasvelti síðustu tvær vikur. Læknarnir segja að fái Navalny ekki nauðsynlega aðhlynningu, helst á gjörgæsludeild sjúkrahúss, séu dagar hans að líkindum taldir.

Læknir Navalnys, Anastasia Vasiljeva, og þrír kollegar hennar, sendu fangelsisyfirvöldum erindi á laugardag þar sem þau kröfðust þess að fá að sinna sjúklingnum, þar eð hann væri lífshættulega veikur. Vasiljeva segir kalíumgildi skjólstæðings síns svo há að hætt sé við nýrnabilun og alvarlegri hjartsláttaróreglu, sem hvort tveggja geti dregið hann til dauða á hverri stundu.

Kalíumgildi yfir 6,0, segir í bréfi læknanna, kalli undir eðlilegum kringumstæðum á tafarlausa meðferð, og hjá Navalny séu þau 7,1 samkvæmt nýjustu mælingum sem Vaslijeva hefur fengið aðgang að.

Hjartalæknirinn Jaroslaw Askitsmin, sem einnig skrifar undir bréfið, varar við því í færslu á Facebook að Navalny geti „dáið hvenær sem er" og að brýnt sé að flytja hann á gjörgæsludeild eins fljótt og auðið er.