Ingibjörg efst hjá Framsókn í norðausturkjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og framkvæmdastjóri Læknastofu Akureyrar, varð efst í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar. Líneik Anna Sævarsdóttir þingmaður varð önnur og Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og varaþingmaður varð í þriðja sæti.

Úrslit póstkosningarinnar voru tilkynnt í kvöld. Ingibjörg og Líneik stefndu báðar á fyrsta sætið. Það sæti skipaði Þórunn Egilsdóttir í síðustu þingkosningum en hún gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Ingibjörg hlaut 612 sæti í fyrsta sæti og Líneik 529 atkvæði í tvö efstu sætin.

Þórarinn fékk 741 atkvæði í þrjú efstu sætin, Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps fékk 578 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti og Halldóra Hauksdóttir varð í fimmta sæti með 547 atkvæði í fimm efstu sætin. Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi Kelduhverfi, hlaut 496 atkvæði í fyrsta til sjötta sæti.