Húsvískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlaunahátíðinni

Mynd með færslu
 Mynd: Maarten Wijnants - Unsplash

Húsvískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlaunahátíðinni

17.04.2021 - 03:26

Höfundar

Hróður Húsavíkur og Húsvíkinga fer enn vaxandi í kvikmyndaheiminum samkvæmt nýjustu tíðindum af Óskarsverðlaunaævintýri þessa íslenska kaupstaðar, því húsvískur stúlknakór mun syngja í myndbandi sem tekið verður upp á Húsavík og flutt á verðlaunahátíðinni seinna í þessum mánuði.

Eins og alþjóð veit þá er lagið Húsavík - My Home Town úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga tilnefnt til Óskarsverðlauna. Venjan er sú að tilnefnd lög séu flutt á verðlaunahátíðinni, sem að þessu sinni verður haldin hinn 26. apríl.

Vikublaðið.is greinir hins vegar frá því að vegna hertra sóttvarnareglna vestra sé útséð um að hin sænska Molly Sandén geti flutt lagið á sviðinu vestur í Hollywood eins og til stóð. Í frétt blaðsins segir að þá hafi sú hugmynd kviknað að flutningur lagsins yrði tekinn upp á Húsavík og myndbandið sýnt á verðlaunahátíðinni.

Sandén komin til landsins og kórstjórinn hoppandi kátur

Haft er eftir Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra Norðurþings, að atburðarásin hafi farið af stað um miðja vikuna og þá hafi allt verið sett á fullt. Flaug Sandén til Akureyrar frá Svíþjóð í gær, eftir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr COVID-prófi áður en hún lagði af stað. Annað sýni var svo tekið þegar hún kom til Akureyrar, eins og lög gera ráð fyrir.

17 stúlkur úr 5. bekk Borgarhólsskóla á Húsavík hafa verið valdar til að syngja með hinni sænsku söngstjörnu í myndbandinu. Ásta Magnúsdóttir, kórstjóri stúlknakórsins, segist í samtali við blaðið vera hoppandi kát, enda, eins og segir í Vikublaðinu, „[e]kki á hverjum degi sem húsvískur stúlknakór syngur á Óskarsverðlauna hátíðinni sem sjónvarpað er beint um allan heim.“

Hljóðupptökur fóru fram í gær en myndataka á að hefjast klukkan 15 í dag og fara þær einkum fram á hafnarsvæðinu. Kvikmyndafyrirtækið True North mun sjá um gerð myndbandsins og er tökulið þegar komið norður. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Húsavík fær tilnefningu til Óskarsverðlauna