Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hraunið gæti runnið niður í Meradali á morgun eða hinn

Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Jarðvísindamenn Háskóla Íslands telja að á næstu tveimur sólarhringum geti hrauntungan sem rennur úr Geldingadölum sameinast hrauninu í Meradölum og einn aðalútsýnisstaðurinn yrði þá eins og eyja í hraunhafi. Þyrluflugmaður sem fer stundum níu sinnum á dag að gosinu segir það breytast í hverri ferð.

Óvanalegt að hraunrennslið sé svo stöðugt

Nýtt gosop opnaðist eftir hádegi í dag á milli gígana sem fyrir eru. Það er í gígjaðrinum og það lætur reyndar ekki fara mikið fyrir sér enn sem komið er. „Þetta hefur verið stöðugt sem er óvanalegt. Að rennslið haldið áfram svona stöðugt í að verða mánuð núna,“ segir Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun HÍ.

Ásta og Gró Pedersen samstarfskona hennar fóru í vettvangsferð að gosinu í dag meðal annars til að kanna hvaða partar hraunsins væru virkir og hvert þeir eru að flæða. 

„Ég sé að hraunið er virkt allt um kring og það heyrist mikið í því svo það er mikið að gerast núna,“ segir Gro Birkefeldt Møller Pedersen, jarðfræðingur við jarðvísindadeild HÍ.

Sá gígur sem virðist vera öflugastur núna er einn af þeim sem myndaðist á þriðjudaginn. Úr honum leggur hraunæð alveg yfir þar sem gönguleiðin lá. Núna þarf fólk að taka ansi stóran krók fram hjá hrauninu, og það stefnir allt í að hrauntungan fari niður í Meradali.

Hvenær heldur þú að það fari niður í Meradali og tengist hinu hrauninu? „Þú ert að biðja um gott gisk, kannski á innan við einum eða tveimur dögum held ég, ef hraunið heldur áfram að flæða í þessa átt en við vitum það ekki, það getur breyst,“ segir Gro.

Rennur um allt að þrjá metra á klukkustund

Hrauntungan er yfir tveggja metra þykk og lætur vel heyra í sér. Mosinn á ekkert í hraunstrauminn sem ýtir honum á undan sér eins og jarðýta. Miðað við GPS-punkta sem Ásta og Gró settu upp við hraunið eftir hádegi í dag er það að færast um einn til þrjá metra á klukkustund, en það getur verið breytilegt. eftir klukkustundum. Þegar fréttastofa var á ferð eftir hádegi í dag átti tungan um 30 metra eftir að brúninni þar sem er gil niður í Meradali. 

Þá lokast þessi útsýnisstaður? „Já og verður svona óbrennishólmi.  Þetta verður bara eyja í hraunhafi.“

Sem betur fer eru fleiri útsýnisstaðir við gosið því það fer hver að verða síðastur að komast á þennan nestisstað. Þangað verður væntanlega aðeins hægt að komast fljúgandi. Og það hafa væntanlega fáir komið oftar að gosinu en þyrluflugmenn.

Hvað hefurðu komið hingað oft? „Ansi oft, stundum níu sinnum á dag en ég hef ekki tölu á því. Það breytist í hvert skipti,“ segir Gísli Matthías Gíslason, Þyrluflugmaður.