Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Guðmundur Ingi varð efstur í forvali VG

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra varð efstur í forvali Vinstri-grænna í Suðvesturkjördæmi. Hann hafði betur í barátturinni við Ólaf Þór Gunnarsson þingmann um efsta sætið. Ólafur varð annar í forvalinu, Una Hildardóttir varaþingmaður varð í þriðja sæti og Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, endaði í fjórða sæti. Þóra Elfa Björnsson, setjari og kennari, varð í fimmta sæti.

Reglur Vinstri grænna eru með þeim hætti að ef tveir karlmenn verða í tveimur efstu sætunum í forvali þá færist kona upp á milli þeirra. Framboðslistinn á því eftir að taka breytingum frá niðurstöðu forvals áður en hann verður ákveðinn.

Guðmundur Ingi hefur verið ráðherra utan þings frá því ríkisstjórnin var mynduð í upphafi kjörtímabils. Hann sóttist eftir því að leiða lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi, eins og Ólafur Þór sem skipaði annað sæti listans í síðustu kosningum. Þá var Rósa Björk Brynjólfsdóttir oddviti en hún hefur síðan gengið úr flokknum og í Samfylkinguna. Una sóttist eftir fyrsta til öðru sæti.

Guðmundur Ingi hlaut 483 af 844 atkvæðum í fyrsta sætið. Ólafur Þór fékk 361 atkvæði í fyrsta og annað sætið og Una 482 atkvæði í þrjú efstu sætin.

Uppfært 18:27 Bætt var við upplýsingum um reglur um kynjahlutföll í efstu sætum framboðslista.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV