Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Get ímyndað mér að karlinn hafi snúið sér í gröfinni“

Mynd: samsett / RÚV

„Get ímyndað mér að karlinn hafi snúið sér í gröfinni“

17.04.2021 - 11:00

Höfundar

„Þetta er eitthvað sem þarf að skýra út fyrir fólki einhvern tímann á lífsleiðinni því þetta kann að þvælast fyrir fólki,“ segir Frosti Logason um skoðun sína á mikilvægi tjáningarfrelsis. Kvikmyndin The People vs Larry Flynt opnaði augu hans fyrir nauðsyn þess að banna ekki skoðanir, sama hve ósmekklegar þær eru. Myndin er í Bíóást í kvöld.

Frosti Logason blaðamaður sá kvikmyndina The People vs. Larry Flynt eftir Miloš Forman þegar hún kom í bíó árið 1996, þá átján ára gamall. Þar fer Woody Harrelson með hlutverk Larry Flynts sem stofnaði klámblaðið Hustler á sínum tíma og var baráttumaður fyrir tjáningarfrelsi en sætti mikilli gagnrýni. Larry lést í febrúar á þessu ári, 78 ára gamall. Frosti segir myndina hafa haft talsverð áhrif á sig.

Myndin og saga Larrys segir hann vera sögu píslarvottar sem vaði eld og brennistein til að verja grundvallarréttindi sem fólk hafi tilhneigingu til að missa sjónar á, „jafnvel þó það hafi kostað okkur blóð, svita og tár að öðlast þessi réttindi þá teljum við þau sjálfsögð þegar við erum búin að hafa þau lengi.“

Það liggi í augum uppi að Larry Flynt hafi verið drullusokkur og hann mótmælti því ekki einu sinni sjálfur. „Boðskapur myndarinnar er að segja að ef tjáningarfrelsið er einhvers virði verðum við að umbera óvinsælar skoðanir, ósmekklegheit og eitthvað sem okkur er ekki þóknanlegt,“ segir hann og vitnar í Stuðmannatextann Búkalú: „Það sem Bubba Morthens þykir gott og gilt þykir Hauki frænda vera heldur tryllt.“ Hann veltir því fyrir sér hvar hægt verði að draga línuna ef það eigi á annað borð að banna einhverja tjáningu sem þyki ósmekkleg.

Myndina segir hann vera stórgóða með frábærum leikurum og handriti, „en það sem gerir hana stórkostlega er hvernig hún nær að flytja þennan mikilvæga boðskap áreynslulaust í gegnum þessa makalausu ævi Larry Flynts.“ Edward Norton standi sig frábærlega sem lögmaður Larry Flynts sem heldur innblásna eldræðu með áhrifaríkum og sannfærandi hætti.

Í myndinni leikur líka Courtney Love sem Frosti var spenntur að sjá á skjánum enda mikill aðdáandi Nirvana og Kurts Cobains heitins. „Hún var að leika þarna í sínu fyrsta hlutverki í Hollywood og gerir það með svona rosalegum bravúr,“ segir Frosti sem telur líklegt að hún hafi ekki átt langt að sækja hlutverkið. „Hún er kannski að einhverju leyti að leika sjálfa sig, illa til hafður fíkill, og er stórkostleg í þessu hlutverki.“ Einnig sé ljóst að Woody Harrelson hafi stúderað Larry Flynt fyrir hlutverkið enda nái hann honum sérstaklega vel. „Allur leikurinn hjá honum og öðrum er til fyrirmyndar í þessari mynd.“

Þegar myndin var gerð á tíunda áratugnum segir Frosti að oft hafi verið gert grín að því sem hann kallar púrítanabrjálæði sem ríkt hafi áratugina á undan þegar öfgarnar hafi komið hægra megin frá í pólitík þaðan sem barist hafi verið fyrir því að banna og ritskoða. Nú á dögum séu sömu raddir háværar en þær komi annars staðar frá. „Í dag hefur það alveg snúist við því þessar sömu öfgar koma úr vinstri áttinni. Og gaman að segja frá því að núna nýlega eftir að Larry Flynt dó var einn þingmaður á Alþingi Íslendinga sem hvatti fólk til að senda inn kvartanir og kvarta yfir fjölmiðlum sem greindu frá andláti Larry Flynts,“ segir Frosti sem vísar í Rósu Björk Brynjólfsdóttur sem var sögð hafa skrifað færslu í Femínistaspjallið á Facebook þar sem hún hvatti fólk til að mótmæla fréttaflutningi um andlát hans. „Ég get rétt ímyndað mér að karlinn hafi snúið sér við í gröfinni eða hlegið hrossahlátri neðan úr kistubotninum þar sem hann liggur,“ segir Frosti að lokum.

The People vs Larry Flynt er í Bíóást í kvöld klukkan 22:35.

Tengdar fréttir

Norður Ameríka

Klámútgefandinn Larry Flynt látinn