Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erlendur maður var fangi í marga mánuði á veitingastað

17.04.2021 - 19:09
Dæmi eru um að fólk hafi reynt að nýta sér fjölskyldusameiningu til að smygla fólki hingað til lands og í fyrra var erlendum karlmanni haldið föngnum í marga mánuði á veitingastað í Reykjavík þangað til samlandar hans komu honum til bjargar. Þrettán mansalsmál hafa komið inn á borð Bjarkarhlíðar síðan í fyrrasumar.

Í júlí í fyrra tók Bjarkarhlíð við tilraunaverkefni um mansal, en í því felst að taka við tilkynningum, halda utan um tölfræði og samhæfa viðbrögð. Síðan þá hafa borist 13 tilkynningar, þar af fimm það sem af er þessu ári. Sjö af þessum tilkynningum varða vinnumansal, yfirleitt á veitingastöðum eða í byggingariðnaði, ein varðar kynlífs- og vinnumansal, þrjár varða kynlífsmansal og tvær smygl á fólki.

Þolendurnir eru frá 11 löndum, enginn íslenskur, og flestir eru konur innan við fertugt. Fjórir gerendur voru íslenskir, en flestir frá Asíu- eða Afríkulöndum. Oftast eru þolandi og gerandi frá sama landinu 

„Það er bæði sárt og athyglisvert að það eru oft samlandar sem eru að hagnýta sér sitt fólk og oft líka skyldmenni, “ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir teymisstjóri hjá Bjarkarhlíð, þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis.

„Alvarlegustu dæmin sem við heyrðum af og fengum inn til okkar var maður sem var að vinna á veitingastað í byrjun COVID, fyrir ári síðan. Hann var frelsissviptur og lokaður inni á þessum veitingastað þar sem hann komst ekki út, komst ekki neitt í burtu og gat ekki óskað eftir hjálp fyrr en hann komst með naumindum í samband við aðra samlanda sem gátu komið honum til aðstoðar. Þannig að þetta geta verið gríðarlega alvarleg mál og farið illa með fólk.“

Maðurinn var í haldi eigenda veitingastaðarins í fimm mánuði, lögreglu var tilkynnt um málið og manninum bauðst aðstoð og atvinna hér á landi, 

„En hann kaus að fara af landi brott þegar gluggi opnaðist í COVID. Þannig að því miður gat lögreglan ekki fengið hann sem vitni en er vissulega með upplýsingar um þennan veitingastað og hvernig hann starfar,“ segir Ragna.

Tvö mansalsmálanna sem hafa komið inn á borð Bjarkarhlíðar varða smygl á ungu fólki sem samlandar þess reyndu að fá inn í landið á grundvelli fjölskyldusameiningar. „Væntanlega eru þá falsaðir pappírar og annað og þannig látið líta út fyrir að viðkomandi tilheyrði þeirri fjölskyldu sem hann á að sameinast.“

Ragna segir að unga fólkið hafi komið frá Afríkulandi, eins og fólkið sem reyndi að fá það til landsins. Það hafi þurft að borga stórar fjárhæðir til þess að komast til landsins. „Í þessu tilviki var logið til um bæði aldur ungmennanna sem komu og líka um tengsl við þann sem var verið að sameina.“

Ragna segir þörf á skýrari lagaramma og fagnar frumvarpi dómsmálaráðherra sem lagt var fram á þessu þingi um breytingar á almennum hegningarlögum sem varða mansal. Hún segir að í því felist skilningur á viðkvæmri stöðu fólks sem lendir í þessum aðstæðum. „Og líka að fólk hefur oft hreinlega verið þjálfað í að segja yfirvöldum ekki rétt. Þannig að það er verið að reyna að nálgast það betur, finnst mér, í þessum nýju lögum.“

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir