Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ekki aftur snúið eftir fyrsta tón

Mynd: RÚV / RÚV

Ekki aftur snúið eftir fyrsta tón

17.04.2021 - 13:02

Höfundar

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft ólík áhrif á tónlistarfólk út um allan heim. Á meðan sumir nýta tímann í að semja ný lög eiga aðrir erfitt með að finna hvatningu til að einbeita sér að tónlistinni. Vonbrigðin að geta ekki haldið útgáfutónleika voru til að mynda mikil fyrir Salóme Katrínu Magnúsdóttur og tónlistarkonan Katrín Helga Ólafsdóttir segir „like” á samfélagsmiðlum ekki koma í staðinn fyrir hrós eftir tónleika.

Í þættinum Þau tóna vel við faraldurinn, sem hefst á sunnudaginn á Rás 2, ræðir Sóley Stefánsdóttir við íslenskt tónlistarfólk um áhrif heimsfaraldursins á lagasmíðar þeirra. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða áhrif einvera og fjarlægð hefur á íslenskt tónlistarfólk. Í hverjum þætti eru tveir gestir og í lok þáttarins semja þeir lag saman sem frumflutt verður í þættinum. Við fáum einnig að heyra verk í vinnslu og símaupptökur frá tónlistarfólkinu sjálfu.

Í fyrsta þætti ræðir Sóley við þær Katrínu Helgu og Salóme Katrínu sem báðar gáfu út gífurlega metnaðarfullar plötur á síðasta ári. Þær eiga það  sameiginlegt að hafa byrjað í tónlistarskóla ungar en höfðu ávallt meiri áhuga á að semja eigin lög frekar en að fylgja fyrirfram ákveðnum nótum og reglum. 

„Áhugi minn á tónlist hefur alltaf verið til staðar en ég vissi kannski ekki að hann væri svona mikill fyrr en í seinni tíð. Ég vissi til að mynda ekki að ég gæti sungið fyrr en ég var 17 eða 18 ára því ég var mjög hlédræg og feimin og var ekki mikið að trana mér fram. En átti samt draum um að búa til tónlist,” segir Salóme Katrín. Hún sótti tvo tónlistarskóla þar sem hún bjó á Ísafirði og var fljótt farin að semja eigin lög. Einn daginn ákvað svo mamma hennar að Salóme ætti einnig að skella sér í söngnám, en fram að því hafði hún aldrei sungið. „Ég gerði það með trega, en ég gerði það af því ég elska mömmu. En fyrstu fimm tímana kom ekki bofs, það kom ekki einn tónn. Svo kom loksins einn tónn og þá var ekki aftur snúið,” segir Salóme Katrín um fyrstu söngtímana. 

Katrín Helga, sem gefur út tónlist undir nafninu K.Óla, byrjaði einnig ung í píanónámi. „Ég var ekkert alltaf dugleg að æfa mig en var stundum að fara mínar eigin leiðir. Semja og eitthvað. Það er samt byrjunin að setjast niður við hljóðfæri og sjá hvað maður getur gert á það án þess að vera að fylgja reglum og nótum fyrir framan mann,” segir Katrín Helga.

Salóme Katrín segir að heimsfaraldurinn hafi haft talsverð áhrif á hennar feril enda var hún að stíga sín fyrstu spor í útgáfu. „Ég þurfti að kljást við allskonar vonbrigði. Draumur minn var að spila á útgáfutónleikum, ekki að gefa út plötu á netinu, mér finnst það algjört aukaatriði, sem er kannski fáránlegt. Draumurinn minn var að fá að spila fyrir fólk og það hefur ekki tekist hingað til,” segir Salóme Katrín. 

Einveran og einangrunin hafði einnig þau áhrif að hún hefur lítið samið af nýrri tónlist að undanförnu. „Ég náði lítið sem ekkert að semja, kannski er það af því að ég var að gefa út plötu. Það er enginn örvun frá umhverfinu. Maður verður svo samdauna öllu sem er að gerast. Jafnvel þó að það séu risastórir hlutir að gerast, og sögulegir, þá hafa þeir deyfandi áhrif,” segir Salóme Katrín.

Katrín Helga tekur undir að það sé vont að hafa ekkert til að stefna að, hvort sem það eru tónleikar, útgáfa eða eitthvað annað. „Maður er alltaf drifin áfram að því að stefna að einhverju. Svo þegar það hverfur, þú veist ekki hvort þú getur haldið tónleika, þú veist ekki hvort þú getir sýnt alla vinnuna þá missir þú dampinn og það er ógeðslega erfitt,” segir Katrín Helga.

Þátturinn Þau tóna vel við faraldurinn er á dagskrá á Rás 2 á sunnudag klukkan 11:00