Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Boða einingarstjórn hinna ýmsu andófsafla í Mjanmar

17.04.2021 - 05:28
epaselect epa08997904 Demonstrators flash the three-finger salute  next to a portrait of detained Myanmar State Counselor Aung San Suu Kyi during a protest against the military coup, in Yangon, Myanmar, 09 February 2021. Thousands of people continued to rally in Yangon despite stern warnings from the military after days of mass protests. Orders were issued on 08 February in major cities and townships banning people from protesting or gathering in groups of more than five. A nighttime curfew was also imposed. Myanmar's military seized power and declared a state of emergency for one year after arresting State Counselor Aung San Suu Kyi, the country's president and other political figures in an early morning raid on 01 February.  EPA-EFE/LYNN BO BO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Andstæðingar herforingjastjórnarinnar í Mjanmar boðuðu í gær myndun ríkisstjórnar þjóðareiningar, saman setta af fulltrúum hinna ýmsu andófshópa og -hreyfinga. Þar á meðal eru þingmenn sem herinn setti af, leiðtogar úr hópi fjöldamótmæla síðustu vikna og mánaða og fulltrúar hinna ýmsu þjóðarbrota og fleiri minnihlutahópa, samkvæmt yfirlýsingu sem birt var á Facebook-síðu sjónvarpsstöðvarinnar Rödd alþýðunnar, sem rekin er af stjórnarandstæðingum.

Þrautreyndur baráttumaður fyrir auknu lýðræði í Mjanmar, Min Ko Naing, les upp yfirlýsinguna og býður fólk að taka „ríkisstjórn fólksins“ opnum örmum. Í annarri færslu eru nöfn fimmtán ráðherra í einingarstjórninni talin upp.

U Win Myint, sem herforingjastjórnin svipti forsetaembættinu þegar hún rændi völdum 1. febrúar síðastliðinn, og Aung San Suu Kyi eru þar bæði nefnd til sögunnar og halda sínum titlum. Auk þeirra eru tilnefndir skuggaráðherrar hinna ýmsu málaflokka, svo sem varnar- og innanríkismála, fjármála, dómsmála og ráðherra alþjóðasamvinnu. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV