Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ævintýralega spurningakeppnin Söguspilið hefst á ný

Mynd: Krakkarúv / Krakkarúv, Rúv

Ævintýralega spurningakeppnin Söguspilið hefst á ný

17.04.2021 - 10:45

Höfundar

Þriðja þáttaröð Söguspilsins, ævintýralega skemmtilegu spurningakeppninnar, hefst sunnudaginn 18. apríl. Átta lið hefja keppni að þessu sinni og eitt lið stendur svo uppi sem sigurvegari.

Í Söguspilinu töfrast krakkar inn í risastórt spil í ævintýraskógi og breytast í álfa og dverga. Til þess að verða góð í spilinu þurfa krakkarnir að hafa verið dugleg að lesa alveg helling af sögum. Þjóðsögum, skáldsögum og hvers kyns sögum. Oddur Júlíusson leikur köttinn sem stýrir spilinu en Katrín Halldóra Sigurðardóttir fer með hlutverk viskubrunnsins.

Brot úr væntanlegri þáttaröð má sjá í spilaranum efst á síðunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage
Oddur Júlíusson í gervi kattarins, viskubrunnurinn, og keppendur úr liði álfa.

Spurningarnar eru allar samdar upp úr sögum sem ætlaðar eru börnum: bókum, bíómyndum, söngtextum, útvarpsleikritum og jafnvel ljóðum. Markmiðið er að verða fyrsta liðið til þess að ná að safna örlagatáknunum fjórum, hjartanu, hetjunni, töfrasprotanum og hauskúpunni.

Meðal þrauta sem krakkarnir þurfa að leysa er að leika bókatitla, búa til sögu á 60 sekúndum, þekkja bókarkápur án þess að titillinn sjáist, þekkja sögur út frá tóndæmum, þekkja höfunda og ýmsar lýsingar á persónum, skrímslum og öðrum furðulegum fyrirbærum. Þrautin að leika bókatitla gæti verið tilvalin skemmtun fyrir fjölskylduna heima, hún gæti til dæmis spreytt sig á þessum bókartitlum hér:

  • Nærbuxnavélmennið
  • Kapteinn ofurbrók
  • Sipp sippsippanipp sippsippanippsippsúrumsipp 

Krakkarnir sem taka þátt eru að sjálfsögðu miklir lestrarhestar en fá líka leslista til að undirbúa sig fyrir keppnina. Það eru 16 krakkar í átta liðum sem taka þátt að þessu sinni en liðsfélagarnir þekkjast öll innbyrðis; eru systur, systkini eða bestu vinir eða vinkonur.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage
Lið álfa og lið dverga etja kappi í Söguspilinu.

Sigyn Blöndal stýrði þættinum fyrstu tvö árin en er nú á bak við tjöldin sem framleiðandi, handritshöfundur og leikstjóri. Sigyn og Eva Rún Þorgeirsdóttir sömdu spurningarnar, Sturla Holm Skúlason sá um upptökur og klippingu. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Menntamálastofnun en síðustu tvær þáttaraðir hafa fengið tilnefningu til Eddu-verðlaunanna sem barna- og unglingaefni ársins. 

Söguspilið verður á dagskrá á sunnudögum kl. 18 og fyrsti þáttur fer í loftið sunnudaginn 18. apríl. Þættina í síðustu þáttaröð má enn sjá í spilara KrakkaRÚV.