Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

10 ára útilokun frá embættum vegna bólusetningarsvindls

epa09140743 Former Peruvian President Martin Vizcarra (2018-2020) offers statements to the press outside his home, in Lima, Peru, 16 April 2021. Vizcarra was disqualified from holding any public office for ten years by the Peruvian Congress, for being secretly vaccinated against COVID-19 last year.  EPA-EFE/John Reyes
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Perúþing samþykkti í gær einróma að útiloka Martín Vizcarra, fyrrverandi forseta Perú, frá því að gegna opinberu embætti næstu tíu árin, vegna þess að hann svindlaði sér fram fyrir röðina fyrir bólusetningu gegn COVID-19. Vizcarra mun því ekki setjast á þing um helgina eins og til stóð, þrátt fyrir að hafa fengið flest atkvæði allra í þingkosningunum á sunnudaginn var.

Þingheimur komst að þeirri niðurstöðu að Vizcarra hefði gerst sekur um að misnota aðstöðu sína og völd, samsæri og falskan vitnisburð í bóluefnahneyksli sem skók Perú fyrir skemmstu, þegar upp komst að tugir ráðherra, embættismanna og fleira fyrirfólks hafði verið bólusett með hinu kínverska Sinopharm-bóluefni áður en það varð aðgengilegt almenningi.

Einróma samþykkt þótt nokkrir hafi setið hjá

86 þingmenn greiddu atkvæði með því að útiloka Vizcarra frá opinberum embættum næsta áratuginn, enginn var á móti. Sama var uppi á teningnum þegar greidd voru atkvæði um að meina fyrrverandi heilbrigðisráðherra að gegna opinberu embætti næstu átta árin og fyrrverandi utanríkisráðherra í eitt ár fyrir sömu sakir.

Öll þrjú hafa þau viðurkennt að hafa verið bólusett á undan öðrum en ekkert þeirra kannast við að hafa misnotað aðstöðu sína til þess að svo mætti verða. Þannig sagðist forsetinn hafa verið sjálfboðaliði í lyfjarannsókn Sinopharm, ásamt konu sinni, þegar þau hjónin voru bólusett í fyrra haust. Stjórnendur rannsóknarinnar kannast þó ekkert við það.

„Varanlegur siðferðisbrestur"

Vizcarra var kosinn forseti í mars 2018, einkum út á fyrirheit hans um að útrýma landlægri spillingu í stjórnmálum og stjórnsýslu landsins. Haustið 2020 samþykkti Perúþing svo með 105 atkvæðum gegn 16 að svipta hann embætti vegna fjölda spillingarmála í ríkisstjóratíð hans í Moqueqa-ríki á fyrri hluta síðasta áratugar.

Í úrskurði þingsins er embættissviptingin meðal annars rökstudd með því sem kallað er „varanlegur siðferðisbrestur" forsetans fyrrverandi, sem átti að taka sæti á Perúþingi um helgina, hafandi fengið fleiri atkvæði en nokkur þingmaður í sögu landsins í kosningunum 11. apríl síðastliðinn.