Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill umbun fyrir að bjarga Amasonfrumskóginum

16.04.2021 - 05:38
epa07788693 A protester paints a sign during a protest  against the fires that have been burning in the Amazonia, at the Brazilian Consulate in Cali, Colombia, 23 August 2019.  EPA-EFE/Ernesto Guzman Jr.
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, heitir því að bjarga Amason-frumskóginum með því að stöðva ólöglegt skógarhögg og ruðning skógar fyrir árið 2030. Bolsonaro hefur áður gefið svipuð fyrirheit, en þau voru ekki án skilyrða þá fremur en nú. Í erindi sem forsetinn sendi Joe Biden, Bandaríkjaforseta, segist hann fús til að leggja sitt af mörkum til að hindra frekari eyðingu Amasonskógarins.

Hins vegar telji hann ekki nema sanngjarnt að Brasilía fái í staðinn sanngjarna umbun fyrir „umhverfislegt framlag þjóðarinnar til plánetunnar." Fyrirframgreiðsla upp á svo sem einn milljarð Bandaríkjadala frá Bandaríkjunum og fleiri ríkjum heims, væri hæfileg byrjun að mati Bolsonaros, segir í bréfinu.

Rúmum 11.000 ferkílómetrum skóglendis var eytt í Amasonfrumskóginum í fyrra með ólöglegum hætti, einkum til að rýma fyrir akurlendi. Er þetta mesta skógeyðing í Brasilíu í rúman áratug.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV