Vill jafna stöðu kynja í stjórnir sem Alþingi kýs

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ekki boðlegt að ekki sé kveðið á um sem jöfnust kynjahlutföll í stjórnum á vegum Alþingis. Að hennar tilhlutan lagði forsætisnefnd fram frumvarp í október til að bæta úr því. Síðan hefur ekkert gerst.

Alþingi stikkfrí þegar kemur að kynjahlutföllum

Lög kveða á um sem jafnasta stöðu kynjanna í stjórnun fyrirtækja. Í jafnréttislögum segir að hlutfall kynjanna skuli vera sem jafnast í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ríkis og sveitarfélaga og ekki minna en 40 prósent þegar nefndarmenn eru  fleiri en þrír. Þessi lög gilda ekki um þau sem Alþingi skipar í nefndir, ráð og stjórnir. Lög um þingsköp Alþingis fjalla um það. 

Kvenstjórnarformenn sjaldgæf tegund

Á vef stjórnarráðsins eru kynjahlutföllin birt. Nú er hlutfall kvenna 45 prósent. Það er aðeins betra en síðustu þrjú ár þar á undan en aðeins verra en 2016. 
Stjórnir þriggja félaga eru aðeins skipaðar körlum og eins félags aðeins skipað konum. 
Engin lög kveða á um kyn stjórnarformanna ríkisfélaga. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra er karlar. Þeir eru 73 prósent stjórnarformanna ríkisfélaga en konur eru 27 prósent. 

Ekkert komist áfram þótt allir flokkar standi að baki

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram frumvarp að jafnréttislögum í október. Á sama tíma var mælt fyrir frumvarpi forsætisnefndar Alþingis  um breytingar á þingsköpum um að jafna stöðu kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum sem kosnar eru af Alþingi. 

„Þetta frumvarp var lagt fram eftir að ég fór þess á leit við forsætisnefnd að hún myndi skoða hvernig Alþingi gæti hagað þessum málum og gert viðeigandi breytingar á þingsköpum þar að lútandi. Nú endurskoðun jafnréttislaganna var samþykkt nú fyrir áramót en þetta frumvarp er enn ekki komið í nefnd,“ segir Katrín.

Hún væntir þess að frumvarp forsætisnefndar fái brautargengi í allsherjar- og menntamálanefnd enda hafi allir stjórnmálaflokkar á Alþingi komið að frumvarpinu því þeir eigi fulltrúa í forsætisnefnd. 

Kynjajöfnuður skiptir máli við stórar ákvarðanir

Hver stjórnmálaflokkur skipar sinn eða sína fulltrúa í stjórnir og þurfa ekki að bera það undir aðra flokka. Það verður því flóknara verði frumvarpið að lögum að ná minnst 40 prósenta  hlutfalli kvenna. 

„En það breytir því ekki að það er hægt að leitast við að ná þessu jafna hlutfalli sem er auðvitað mjög mikilvægt þar sem verið er að taka stórar ákvarðanir.“

Nei, þetta er ekki boðlegt

Nýlega tilnefndi Alþingi níu fulltrúa í stjórn RÚV; sex karla og þrjár konur. Framsóknarflokkurinn tilnefndi konu en Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur tvö hver, einn karl og eina konu. 
Allir þrír fulltrúar stjórnarandstöðuflokka í stjórn RÚV verða hins vegar karlar. 

„Ég hugsa að málið liggi þannig að flokkarnir hafi ekki haft samráð sín á milli heldur einfaldlega tilnefnt.“

Svona í nútímaþjóðfélagi finnst þér þetta bara boðlegt?

„Nei, þess vegna fór ég þess á leit við þingið að það myndi breyta lögum og ég vona að þær lagabreytingar muni ganga í gegn.“