Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill að Covax fái ónotað bóluefni AstraZeneca

16.04.2021 - 03:52
epa09132588 A health worker prepares to administer a dose of AstraZeneca COVID-19 vaccine at a vaccination hub in Naples, Campania, Italy, 13 April 2021. Over one million doses have been injected in Campania so far.  EPA-EFE/CIRO FUSCO
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Forstjóri lyfjafyrirtækisins AstraZeneca hvetur þau ríki heims, sem ekki þurfa eða ætla að nota það bóluefni sem þau hafa þegar keypt af fyrirtækinu, til að gefa það áfram til annarra landa í gegnum alþjóðlega bóluefnasamstarfið Covax.

„Ég vil endilega hvetja þau lönd sem það geta, til að gefa sína bóluefnaskammta. Þau ættu að veita öðrum löndum aðgang að efninu eins fljótt og auðið er,“ sagði forstjórinn, Pascal Soriot, í Genf í gær, þar sem hann ávarpaði fund bóluefnasamstarfsins Gavi.

Afar sjaldgæf aukaverkun

Hlutfallslega mjög fá tilfelli blóðtappa, sem sum hafa verið banvæn, hafa verið rakin til bólusetningar með bóluefni AstraZeneca. Lyfjastofnun Evrópu hefur skilgreint blóðtappann sem „afar sjaldgæfa aukaverkun“ af notkun lyfsins en mælir áfram með notkun þess engu að síður, þar sem áhættan sem fylgi því að fá COVID-19 sé margfalt meiri.

Það eru einkum konur undir sextugu sem eiga á hættu að fá blóðtappa eftir bólusetningu með þessu bóluefni. Sums staðar, svo sem hér á landi, hefur verið brugðist við þessu með því að einskorða notkun lyfsins við aðra hópa en konur undir sextugu, og jafnvel alfarið við fólk yfir 65 ára aldri. Annars staðar, svo sem í Danmörku, hefur verið ákveðið að hætta notkun þess alveg.