Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Snjókoma verður við gosstöðvarnar um miðjan daginn

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Gosstöðvarnar í Geldingadölum verða aðgengilegar almenningi frá hádegi í dag til klukkan níu í kvöld en rýming hefst tveimur tímum síðar og gert ráð fyrir að henni ljúki um miðnætti. Um miðjan dag snjóar á svæðinu en með kvöldinu er búist við að gas safnist upp við gosstöðvarnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum. Búist er við fremur hægri norðlægri átt við gosstöðvarnar í fyrstu en síðan snýst í norðvestan 8 til 13 metra á sekúndu.

Vindáttin snýst svo til vesturs með snjókomu milli klukkan þrjú og sex í dag. Í kvöld er spáð hægri breytilegri átt með stöku éljum en þurrt verður næstu nótt. Frost verður allt að þremur stigum. 

Lögregla áréttar að hún getur án fyrirvara lokað fyrir alla umferð inn að gosstöðvunum.  Gert er ráð fyrir því að bannsvæði við eldstöðvarnar verði markað á korti sem verður birt síðar í dag.

Fólk er hvatt til að fylgjast með loftæðamælingum á loftgaedi.is og leiðbeiningum frá almannavörnum. Gasmökkinn leggur undan vindi og því alltaf öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.

Í dag leggur gasmengunina fyrst til suðurs og síðar suðvesturs og þá er ekki búist við mengun í byggð. Þegar kvöldar eru líkur á að gas safnist upp við gosstöðvarnar. 

Þá verður vindur hægur og við það getur gas safnast fyrir í dalnum og verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar. Þegar svo háttar til þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en alls ekki halda sig í brekkunum ofan dalsins.

Lögregla áréttar að svæðið sé ekki fyrir lítil börn, sem eru viðkvæm og nær jörðu en eldra fólk. Því eru þau útsett fyrir skaðlegum lofttegundum. Sömuleiðis skal forðast að taka með sér hunda því þeir eru í hættu vegna gasmengunar og eiga til að lepja úr pollum sem flúor getur leynst í.

Jafnframt er brýnt fyrir þeim sem ætla að gosstöðvunum að klæða sig vel, annars eigi þau ekkert erindi þangað. Velja skal gönguleið eftir vindaspá hverju sinni. 

Á morgun laugardag og á sunnudaginn verður svæðið verður vaktað af lögreglu og björgunarsveitum frá klukkan 12 á hádegi til miðnættis en lokað verður fyrir aðgengi að svæðinu klukkan níu annað kvöld. Rýming hefst klukkan ellefu og verður lokið fyrir miðnætti.

Á morgun er spáð hægri suðlægri eða suðvestlægri átt og þurrviðri. Hægt vaxandi vindur þegar líður á daginn, með sunnan- og síðar suðvestan átt 8 til 13 metra á sekúndu síðdegis með éljum. Hiti verður kringum frostmark.

Gasmengun berst einkum til norðurs og norðausturs á morgun og gæti borist að Vogum og til Höfuðborgarsvæðisins.

Þau sem halda inn á svæðið fyrir hádegi um helgina gera það á eigin ábyrgð að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar. Svæðið er hættulegt, ekki síst vegna gasmengunar.