Sex starfsmenn Jarðborana fengu COVID á Asoreyjum

16.04.2021 - 18:01
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Arnaud Mader - Wikimedia Commons
Sex íslenskir starfsmenn Jarðborana á Asoreyjum og þarlendur samstarfsmaður þeirra hafa greinst með COVID-19. Þetta er um þriðjungur starfsmanna Jarðborana sem vinna að verkefni á eyjunum.

Um tuttugu starfsmenn Jarðborana vinna að borun við jarðhitaleit á Asoreyjum. Á þriðjudag greindust tveir starfsmenn með COVID-19 smit og þeim hefur fjölgað eftir því sem leið á vikuna. Í dag voru smitin orðin sex talsins. Að auki hefur einn þarlendur starfsmaður samstarfsfyrirtækis Jarðborana greinst með veikina. Allir sem hafa greinst með smit eru á næturvaktinni en ekkert smit hefur greinst á dagvaktinni. Öll starfsemi hefur verið stöðvuð þangað til framhaldið verður ákveðið í ljósi veikindanna.

Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana, segir að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda á Azoreyjum sé fylgt í einu og öllu en að fyrirtækið leiti einnig til trúnaðarlæknis síns hér heima. „Og síðan erum við að leggja líka svolítið traust á COVID-göngudeildina á Landspítalanum að þau hjálpi okkur í því að hafa samband við mannskapinn okkar þarna úti. Þetta er hvort í senn líkamlegt ástand og ekki síður geta komið andlegar vangaveltur samhliða þessu.“ Ekki er búið að rekja smitið. 

„Þau lýsa þessu sjálf þannig að þetta séu allt frá því að vera engin veikindi, eins og þau séu ekki veik, upp í að vera flensueinkenni og ég er að vona að það verði ekki verra,“ segir Sigurður um veikindi starfsmanna. Ef hins vegar veikindin verði alvarlegri sé heilbrigðiskerfi á Asor-eyjum vel undir það búið að takast á við þau.

Sigurður segir að þetta sé í fyrsta skipti frá upphafi COVID-19 sem svona komi upp hjá fyrirtækinu. Það hafi sett sér strangar reglur í starfsemi sinni hérlendis og erlendis til að draga úr hættu á COVID-smiti og verið heppið fram að þessu. Nú verði unnið að því að tryggja sem best hag starfsmannanna.