Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óviðunandi að refsa Íslendingi fyrir að nýta málfrelsið

16.04.2021 - 14:53
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi komið mótmælum sínum skýrt á framfæri við kínversk stjórnvöld vegna Íslendings sem settur hefur verið á svartan lista þar í landi. Það sé fullkomlega óviðunandi að setja fólk á slíka lista fyrir að nýta málfrelsi sitt. 

Jónas Haraldsson lögmaður var fyrr í vikunni kallaður á fund í utanríkisráðuneytinu þar sem honum var tjáð að kínversk stjórnvöld hefðu ákveðið að setja hann  á svartan lista vegna skrifa hans í Morgunblaðið um Kína. Jónas sagði í hádegisfréttum að þetta væri bitlausar aðgerðir í hans garð, því hann eigi engar eignir sem hægt væri að frysta í Kína og hefði engin áform um að fara þangað.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er því ekki kunnugt um aðra Íslendinga sem beittir hafi verið samskonar aðgerðum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að íslensk stjórnvöld hafi komið mótmælum sínum á framfæri við kínversk stjórnvöld. 

„Við komum okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri, að þetta væri algjörlega óviðunandi, og við gerðum það strax. Við gerðum það bæði í Peking og hér í Reykjavík. Við kölluðum strax á sendiherra Kína og komum þeim skilaboðum skýrt áleiðis. En þetta er hins vegar ákvörðun Kínverja sem við komum eðlilega ekkert að enda hefðum við aldrei gert það.“

Þetta er óviðunandi að þínu mati? „Fullkomlega. Hér er einfaldlega um það að ræða að íslenskur ríkisborgari er að nýta það frelsi sem okkur finnst vera sjálfsagt, enda er það sjálfsagt, og það er málfrelsið. Og það að setja hann á slíkan lista fyrir að gera það er fullkomlega óviðunandi.“

 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV