Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýr miðbær rís: „Selfoss verður breyttur bær á eftir“

16.04.2021 - 19:34
Mynd: Sigtún þróunarfélag / Aðsend mynd
Nýr miðbær á Selfossi verður formlega tekinn í notkun innan skamms. Þar gefur að líta fjölda húsa sem eiga sér fyrirmyndir í löngu horfnum íslenskum byggingum.

Framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi hafa staðið yfir í tæp tvö ár. Framkvæmdirnar eru vel á veg komnar og til stendur að taka miðbæinn formlega í notkun um miðjan júní.

„Það er gaman í vinnunni. Þetta eru heimamenn að byggja miðbæ fyrir heimamenn, það er eftirvænting í loftinu og menn hlakkar til,“ segir Leó Árnason, framkvæmdastjóri Sigtúns þróunarfélags sem stendur að verkefninu.

Í miðbænum verður meðal annars mathöll með átta veitingastöðum, bar, sýning um skyrið og matarmenningu Íslands, íbúðir, skrifstofur, verslanir og fleira. Leó segir að búið sé að leigja út um 90% rýmanna.

Öll þessi hús sem hér eru, þau eiga sér fyrirmyndir?

„Já þetta eru allt sögulegar fyrirmyndir, við erum í raun að endurbyggja hús sem einhvern tímann stóðu á Íslandi en annað hvort brunnu eða voru rifin niður. Þetta glæsilega hús hérna er gamla Mjólkurbúið sem eitt sinn var andlit Selfoss en var síðan rifið en er orðið það aftur í dag. Hér erum við með Selfoss-húsl, Egilssonarhús úr Hafnarfirði og svo nokkur Reykjavíkur-hús. Þannig að mörg bæjarfélög eiga sinn fulltrúa hér í nýjum miðbæ á Selfossi,“ segir Leó.

Fagnar brúnni

Áfanginn sem nú er að klárast er fyrsti áfangi verksins, en síðan á eftir að klára tvo áfanga til viðbótar og áætlað er að þeirri vinnu ljúki 2024. Heildarkostnaður er áætlaður 10 til 12 milljarðar króna.

„Ég held að fólk geri sér grein fyrir því að Selfoss verður breyttur bær á eftir. Það verður betra að búa hérna og það verður meira gaman að taka á móti gestum. Og fólkið er hrifið.“

Til stendur að færa hringveginn þannig að hann liggi fram hjá Selfossi, með nýrri brú yfir Ölfusá. Leó hefur ekki áhyggjur af því að það leiði til fækkunar gesta.

„Nei við fögnum því að þurfa að takast á við það verkefni. Það er ákveðin hætta í því en það eru líka fólgin í því tækifæri. Og ef við stöndum okkur og gerum eitthvað eins og þennan miðbæ, þannig að við drögum til okkar gesti og íbúa, þá fagna ég brúnni,“ segir Leó.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir