„Lögreglan sturtaðist með liðinu fram í salinn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Lögreglan sturtaðist með liðinu fram í salinn“

16.04.2021 - 13:01

Höfundar

„Kannski voru menn, sérstaklega ég, bölvaðir drjólar,“ segir Ólafur Þórarinsson, Labbi í Mánum þegar hann rifjar upp sveitaböllin sem hann hefur troðið upp á ófáum. Hann hefur staðið í ströngu síðustu mánuði, gaf nýverið út plötu með nótnabók og bókina Saga hljómsveitarinnar Mána og sunnlenskra sveitaballa.

Ólafur Þórarinsson, Labbi í Mánum eins og hann er gjarnan kallaður, stendur í stórræðum um þessar mundir bæði í plötu- og bókaútgáfu. Hann sagði frá bók sinni, Saga hljómsveitarinnar Mána og sunnlenskra sveitaballa, í Kiljunni og rifjaði upp sveitaböllin sálugu sem svo mikill fjöldi fólks sótti að stundum var varla húsrúm. „Það var algengt að það væri nánast bara massífur salurinn. Ég einmitt nefni í bókinni að þó einn væri rotaður þá datt hann ekkert fyrr en eftir ballið þegar fór að grisjast á dansgólfinu,“ segir hann sposkur.

Ekkert spaug

Það var slegist, dansað, sungið og kysst á sveitaböllunum sálugu og fáir hafa troðið upp á eins mörgum slíkum og  Labbi og Mánar. Selfysska sveitin, sem var ein stærsta bítla- og hipparokkssveit landsins, var ekki að spauga með tónlist sína og æfði mikið og stíft. „Við byrjuðum náttúrulega bara sem venjuleg bítlahljómsveit en út af gríðarlegum áhuga snerist allt um þetta hjá okkur.“ Mánar voru atvinnumenn í faginu og ákváðu að hætta í annarri vinnu til að einbeita sér að músík.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir kættust sem ráku augu í svona auglýsingar og pússuðu skóna.

Músíkalskir bræður

Labbi var söngvari Mána og Björn bróðir hans, kallaður Bassi, var orgelleikari sveitarinnar. Labbi segir að tónlistin hafi fylgt bræðrunum frá bernsku. „Þetta er greinilega innbrennt í okkur og sérstaklega Bassi bróðir, sem er eldri en ég, var byrjaður að læra á undan. Hann kenndi mér og leiddi mig fyrstu sporin í þessu.“

„Kannski voru menn, sérstaklega ég, bölvaðir drjólar“

Það var heilmikið sukk í kringum böllin en hljómsveitinni var mikilvægt að láta tónlistina alltaf ganga fyrir og leyfa skrallinu ekki að yfirtaka, „hvorki á böllum eða annars staðar, við gátum alltaf haft hana í fyrirrúminu.“ segir Labbi og glottir við tönn. „En kannski voru menn svona, sérstaklega ég, bölvaðir drjólar sko.“

Í tónlistarvali réðst sveitin alls ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þeir léku gjarnan það þyngsta og erfiðasta sem þeir fundu og spiluðu stundum heilu Jethro Tull-plöturnar. „Við tókum alveg heilu verkin og æfðum þetta tón fyrir tón. Ef það vantaði eitthvað hljóðfæri var farið og keypt það sem vantaði í eitthvað lag,“ segir Labbi. Á milli þess sem þeir spreyttu sig á tónlist annarra sömdu þeir sína eigin. „Við vorum alltaf að gefa af okkur og leggja eitthvað til málanna.“

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mánum var alvara með tónlist sinni og þeir spreyttu sig oft á erfiðum lögum.

Ekki bara hæ hó og jibbíjey

Sveitaböllin sem þeir léku á voru ekki alltaf hefðbundin sveitaböll, síst þegar þeir léku tónlist með sveitum eins og Jethro Tull. „Þetta voru bara eins og tónleikar á tímabili og við komumst upp með það því þetta þróaðist svo skemmtilega saman, fólkið og við. Þetta voru mjög sérstök sveitaböll að því leyti,“ rifjar hann upp. „Það var ekki bara hæ hó og jibbíjey í gangi þó við værum með létt inn á milli. Í raun var þetta bara þrælheví dæmi sem við vorum að gera.“

Lögreglan leysti upp slagsmál um pólitík

Oft gat komið til stimpinga í hamaganginum og það var jafnvel slegist um pólitík. Labbi segir frá því í bókinni þegar stuðningsmenn Kristjáns Eldjárns og aðrir sem studdu Gunnar Thoroddsen í forsetakosningunum 1968 fóru í hár saman á balli á Borg í Grímsnesi. Þegar einn áhorfandinn stökk upp á svið og öskraði: „Ég styð Kristján“ kom Gunnarsmaður aðvífandi og sveiflaði honum út í sal. Upp hófust svakaleg slagsmál og hljómsveitin þurfti að standa í ströngu við að verja sig og græjurnar fyrir hnjaski.

„Við drógum fyrir sviðið þegar ballið var búið til að fá ekki stóla og drasl í græjurnar og svo stóðum við fyrir innan og þá komu bungur á tjöldin. Við ýttum á bungurnar og drösluðum þeim fram í sal.“ Hljómsveitarmeðlimir urðu varir við stærðarinnar bungu á tjaldinu sem þeim tókst með alefli að rusla út í salinn aftur til að verja græjurnar, en komust fljótt að því að þetta hefðu hvorki verið fljúgandi stólar né hefðbundnir slagsmálahundar. „Þá var þetta löggan sem sturtaðist með liðinu fram í salinn,“ segir hann og hlær.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björk spilaði á nokkrum sveitaböllum með Mánum 1982.

Björk heillaðist af sveitalífinu

Labbi var líka um tíma í hljómsveitinni Kaktus, þar sem hann fékk Björk Guðmundsdóttur meðal annars til liðs við sig. „Ég hafði séð hana í sjónvarpi og hvað hún var athyglisverð og skemmtileg. Mig langaði alltaf að brjóta þetta upp og gera eitthvað skemmtilegt svo ég hringi í hana svona af rælni og hún er til í að skoða þetta.“

Labbi var þá bóndi á bænum Glóru og fékk Björk í heimsókn til sín í sveitina. „Hún heillaðist af sveitalífinu, fer út í fjós, faðmar kálfana og allt saman. Ræður sig sem kaupakonu hjá mér í leiðinni.“ Þau spiluðu saman um sumarið og fram á vetur og aftur sumarið eftir þegar Björk kom fram með Labba og fleirum undir merkjum Mána sem þá höfðu þó verið hættir um hríð. „Hún stóð sig auðvitað frábærlega vel, heillaði alla og var alveg gríðarlega dugleg kaupakona.“

„Við höfum sennilega mörg hjónabönd á samviskunni“

Böllin sótti fjöldi fólks sem kom víða að en svo lögðust þau af, að minnsta kosti í þeirri mynd sem Labbi minnist með mikilli hlýju. Hann segir að fólk hafi ekki einungis þráttað og flogist á á böllunum heldur hafi margir slegið sér upp. „Þarna hittist fólk frá svo stóru svæði og lítil hætta á einræktun þegar það kemur svona víða að,“ segir hann. „Þetta hafði ýmsa kosti. Við höfum sennilega mörg hjónabönd á samviskunni.“

Rætt var við Ólaf Þórarinsson í Kiljunni.