Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Katti Frederiksen hlýtur Vigdísarverðlaunin í ár

Mynd með færslu
 Mynd: Mennta- og menningarmálaráðun
Alþjóðlegu menningarverðlaunin sem kennd eru við Vigdísi Finnbogadóttur féllu grænlenska ljóðskáldinu og málvísindakonunni Katti Frederiksen í skaut í gær. Hún er 38 ára og núverandi  núverandi mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands. Verðlaunin hlýtur hún fyrir lofsvert framlag í þágu tungumála. 

Katti Frederiksen hefur vakið athygli á málefnum grænlenskunnar, svo eftir hefur verið tekið, innanlands og utan, segir á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Hún hefur gert það með fræðaskrifum, ljóðum, barnabókum og í opinberri umræðu. Hún hefur jafnfamt lagt ríka áherslu á að börn tali og skrifi grænlensku.

Tíu ár eru frá því að Katti Frederiksen lauk lauk meistaraprófi í grænlensku, bókmenntafræði og fjölmiðlafræði frá Háskólanum í Nuuk, Ilisimatusarfik. Hún hefur átt sæti í Málnefnd Grænlands. 

Hún hefur starfað frá hjá Oqaasileriffik, Málráði Grænlands, fyrst sem deildarstjóri en hefur verið framkvæmdastjóri þess frá 2015. Árið 2020 varð hún menntamálaráðherra Grænlands.

Það var Þorbjörn Jónsson, ræðismaður Íslands á Grænlandi, sem afhenti Katti Frederiksen verðlaunin en þau nema sex milljónum íslenskra króna. Í fyrra varð færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen fyrstur til þess að hljóta verðlaunin. 
 
„Ég er með ýmislegt á prjónunum sem snertir tungumál og bókmenntir og þess vegna skipta Vigdísarverðlaunin gríðarlega miklu máli fyrir þau verkefni sem eru fram undan. Þau hvetja mig til dáða og gefa mér þrótt til að halda ótrauð áfram í átt að því marki sem ég hef sett mér,“ sagði Katti Frederiksen í þakkarávarpi sínu þegar hún tók við verðlaununum.

Á síðasta ári þegar Vigdís varð níræð stofnuðu stjórnvöld, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum til verðlaunanna en það ár voru einnig liðin 40 ár frá því að hún var kjörin forseti Íslands.

Markmiðið  er að heiðra og vekja athygli á framlagi Vigdísar til tungumála og menningar en hún sem velgjörðasendiherra tungumála hjá UNESCO leggur ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga. 

Guðmundur Hálfdanarson er formaður úthlutunarnefndar verðlaunanna en auk hans sitja Auður Hauksdóttir og Sveinn Einarsson í nefndinni auk þess sem Magnús Diðrik Baldursson starfaði með henni.